Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:54:22 (3282)

1996-02-27 14:54:22# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir góða og skilmerkilega ræðu sem í flestum efnum lýsti vel og ítarlega skoðun hans á málinu. Ég vildi hins vegar leyfa mér að varpa fram einni spurningu til hans og veita honum örfá heilræði, leyfa honum að ausa af sjóðum reynslu minnar frá samstarfinu við herramanninn sem situr þarna.

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. samgrh. í gær að hann hygðist ekki selja hlutabréf ríkissjóðs í hinu væntanlega hlutafélagi. Nú er það svo að hæstv. ráðherra er eins og kvikasilfrið, hann getur haft eina skoðun núna og aðra á þessum málum í kvöld. Ég minni á þegar hann gaf yfirlýsingu um það úr þessum ræðustól að það væri ekki verið að selja Ríkisskip og um kvöldið sama dag og hann gaf yfirlýsinguna var búið að skrifa undir söluna. Ég man þetta vegna þess að ég var í stjórnarliðinu á þessum tíma. Hv. þm. Magnús Stefánsson segir skýrt og skorinort: Hluti ríkisins verður ekki seldur. En fái kvikasilfurseðlið aftur yfirhöndina í kolli hæstv. ráðherra mun Framsfl. þá standa að slíkri sölu eða mun Framsfl. og hv. þm. standa að sölu á einhverjum hluta af fyrirtækinu? Til þess að greiða fyrir umræðum og þingstörfum í dag er nauðsynlegt að þetta liggi fyrir vegna þess að hv. þm. talar fyrir hönd annars stjórnarflokksins.