Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:57:05 (3284)

1996-02-27 14:57:05# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Til að taka af allan vafa vil ég segja að sú reynsla er í flestum atriðum mjög góð. En, herra forseti, það er alveg rétt sem hv. þm. Magnús Stefánsson segir. Það þarf ekkert að taka af neinn vafa í þessum efnum vegna þess að enginn vafi er. Hvers vegna og hvernig rökstyður hv. þm. það? Hann rökstyður það á eftirfarandi hátt: Það þurfti atbeina Framsfl. til að koma klásúlu inn í þetta frv. sem kemur í veg fyrir að hæstv. samgrh. geti selt fyrirtækið. Hv. þm. Magnús Stefánsson er í rauninni að lýsa því yfir að hæstv. samgrh. hafi í upphafi viljað hafa frjálsar hendur til þess að selja fyrirtækið. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að hv. þm. lýsi því yfir fyrir hönd Framsfl. að ef til þess kemur að hæstv. samgrh. og flokkur hans beita sér fyrir því að fyrirtækið verði selt eða hluti þess hvað þingmaðurinn og hans ágæti flokkur ætla þá að gera.