Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:59:32 (3286)

1996-02-27 14:59:32# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stórt og mikilvægt mál, frv. til laga um formbreytingu á rekstri Pósts og síma. Eins og komið hefur fram í umræðunni og yfirlýst er af hálfu hæstv. ráðherra er ekki innifalið í þessari lotunni að einkavæða fyrirtækið, með öðrum orðum að selja það þriðja aðila, en meira um það síðar.

Ég sagði að þetta væri stórt og mikið mál. Ekki síst er það stórt og mikið í ljósi þess að hér er um veigamikið þjónustufyrirtæki að ræða fyrir alla landsmenn, öryggisþátt í þjónustu ríkisvaldsins, svo ekki sé nú talað um þær fjárhagslegu stærðir sem hér er um að ræða. Stærðir sem rétt er að fara yfir nokkrum orðum. Við erum að ræða um fyrirtæki sem greiðir í laun eitthvað um 2.500 starfsmönnum tæplega það 3,5 milljarða kr. á ári. Við erum að ræða um fyrirtæki sem hefur lífeyrisskuldbindingar upp á rúma 8 milljarða kr. Við erum að ræða um fyrirtæki sem hefur safnað í sarpinn og á í eigin fé um 13 milljarða eða rúmlega það. Með öðrum orðum samkvæmt þessu frv. erum við að ræða um fyrirtæki sem ætlar að hefja leikinn með 10 milljörðum og rúmlega það í hlutafé og 3 milljörðum kr. í varasjóð þannig að hér eru engar smá stærðir á ferðinni, virðulegi forseti. Það er því rétt og nauðsynlegt ekki síst af þeim sökum að við stígum hér varlega til jarðar og gaumgæfum alla hluta þessa máls.

Það er ekki hægt að gefa þessu frv. aðra einkunn nú í fyrstu lotu en þá að það veldur vonbrigðum. Það veldur vonbrigðum vegna þess að það svarar ekki ákveðnum lykilspurningum sem er bráðnauðsynlegt að liggi fyrir strax á þessum vettvangi í upphafi máls. Því auðvitað erum við ekkert að ræða um það eitt að formbreyta B-hluta ríkisstofnun í hlutafélag alfarið í eigu ríkissjóðs. Við erum líka að ræða um það með hvaða hætti þetta fyrirtæki undir óbreyttu fyrirkomulagi eða hlutafélagaforminu ætlar að taka á þeim breytingum sem sannarlega eru að gerast í kringum okkur. Það er bylting í fjarskiptum, breytingar á viðskiptalegu umhverfi, skuldbindingar sem við höfum undirgengist í almennum alþjóðlegum samningum, EES-samningi og vegna ESB-tilskipana. Þess vegna er það svo brýnt að hæstv. ráðherra svari því hér og nú við 1. umr. þessa máls, svari því sem velt er upp í einum tveimur greinum í frv. og lýtur að einkarekstrinum, einkaleyfisfyrirkomulaginu í 10. og 11. gr. Ég vil fá skýr svör við því og vil að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir því á hvaða sviðum það er nú og í næstu framtíð eða næstu missirum sem einkaleyfið mun halda áfram í hf.-rekstri eða annars konar rekstri. Hvaða rekstrarþættir eru það sem munu nú þegar verða án einkaleyfis og lúta almennri samkeppni? Nú er það svo að sumir rekstrarþættir Pósts og síma eru þegar í samkeppni. En spurningin lýtur að lykilatriðum. Hún lýtur líka að hinu, hvað er rétt og skynsamlegt að gera varðandi óhjákvæmilegar breytingar á rekstrarstöðu Pósts og síma. Það liggur fyrir til að mynda að 1. jan. 1998 verður stóraukið frelsi á þessum vettvangi. Á hinn bóginn hefur ESB lýst því yfir í stefnumörkun sinni til lengri framtíðar að grunnnetið sjálft, dreifikerfið, kaplarnir í jörðinni og línurnar um landið, verði áfram um sinn, fram á næstu öld væntanlega eða a.m.k. áfram um ókomna tíð svo langt sem séð verður, ekki undanþegið einkaleyfum. Því mætti velta því fyrir sér á þessu stigi máls hvort menn ættu ekki að gaumgæfa rekstrarform þar sem ríkið heldur áfram að eiga þetta dreifikerfi, reka það og treysta það með þetta öryggissjónarmið í huga, með þessa almennu þjónustu til handa dreifðari byggðum í huga, en seldi síðan aðgang að þessu sama neti. Með öðrum orðum að dreifikerfið sem slíkt gæti verið sérfyrirtæki. Þetta er ein sú leið sem hugsanleg væri í þessu sambandi og hefur þá kosti sem ég nefndi að menn hafa þó tökin á því hvernig boðið verður upp á þjónustu til hinna dreifðari byggða til lengri og skemmri tíma.

Það er því lykilspurning: Hvernig horfir það við í huga hæstv. ráðherra varðandi einkaleyfi? Hann nefndi það hér, og skautaði hratt um það svið raunar, að póstþjónustan væri ekki jafnlangt á veg komin í þessum alþjóðlegu samningum okkar hvað varðar frelsið og samkeppnina þannig að um sinn mundi hún verða minni breytingum háð heldur en símaþátturinn, en hvað með þessa einstöku rekstrarþætti? Póstur og sími er auðvitað meira heldur en póstur og sími. Hann er fjölmargar undirdeildir og mikilvægir rekstrarþættir.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það almennt um formbreytingu úr ríkisrekstri í hlutafélög eða þá einkavæðingu, þá er það afstaða okkar alþýðuflokksmanna, okkar jafnaðarmanna, að það beri að meta hvert tilfelli fyrir sig. Það eru með öðrum orðum ekki trúarbrögð að hefja ríkisrekstur eða hætta honum og það eru ekki trúarbrögð að einkavæða eins og því miður liggur í landi hjá allt of mörgum núv. stjórnarliðum og raunar því miður fyrrv. líka. Þetta er lykilatriði. Það er með öðrum orðum köld skynsemi sem á að ráða því. Kannski þrjú lykilatriði. Erum við að ræða um bætta þjónustu, ódýrari þjónustu og starfsöryggi starfsmanna viðkomandi stofnunar? Er skynsamlegt að breyta rekstrarformi þessara þriggja þátta? Skoðum þessa þrjá þætti með hliðsjón af því frv. sem hér liggur fyrir. Liggur það fyrir að þjónustan verði bætt? Frv. svarar því ekki skýlaust. Liggur það fyrir að þjónustan verði ódýrari? Frv. svarar því ekki með skýlausum hætti. Er öryggi starfsmanna tryggt? Því miður, frv. svarar því ekki með skýlausum hætti. Með öðrum orðum er þetta frv. eins og ég gat um ákaflega hráunnið og hefur satt að segja tekið mjög litlum breytingum frá því sem var 1993 þegar það birtist fyrst í drögum og starfsmenn sumir hverjir og forsvarsmenn þeirra fengu að skoða það og fara um það höndum. Því finnst mér að tíminn hafi verið illa nýttur. Þrátt fyrir einlægar tilraunir ráðherra á sumum sviðum að koma til móts við þingmenn og líka stjórnarandstöðuþingmenn og fulltrúa starfsmanna með því að kynna þeim reynslu nágrannaþjóða okkar í Noregi og Danmörku, af gangi mála þar, þá eru það vonbrigði að menn skuli ekki vera komnir lengra á veg til að mynda í viðræðum við starfsmenn. Það kom fram í viðræðum sem þingflokkur Alþfl. átti við fulltrúa starfsmanna í gær að haldnir hafa verið þrír fundir upp á síðkastið um þessi stóru mál sem að þeim snúa. Ráðherrann sjálfur, ef ég man rétt og skildi rétt, hafði ekki tök á að vera þar viðstaddur, a.m.k. á þessum fundum sem tilgreindir voru af hálfu símamanna, heldur fulltrúar hans og þeir gátu litlu svarað um ákveðin lykilatriði. Því það er alveg ljóst hvað sem líður textanum í þessu frv. að eftir sem áður er ákveðin óvissa enn þá til staðar.

Það liggur til að mynda alveg ljóst fyrir að ef nýtt hlutafélag á að verða að veruleika þann 1. ágúst eða 1. sept. nk., og samningar opinberra starfsmanna eru úti um næstu áramót, þá hlýtur maður að spyrja um tæknilegt atriði, hvernig réttarstaða þeirra verður þessa fjóra mánuði. Og síðan hitt: Hver er staða þeirra gagnvart nýjum samningum þegar þessir kjarasamningar eru úti? Þeir verða ekki lengur opinberir starfsmenn. Það er að vísu tekið á ákveðnum þáttum hér, reynt að tryggja ákveðinn biðlaunarétt sem hv. þm. hafa bent á að er alls ekki tryggður. Það er reynt að taka á því, og virðist í fljótu bragði vera nokkuð tryggilega frá því gengið, að lífeyrissjóðamálin séu með þeim hætti sem viðunandi er. En almennu kjörin eru það ekki. Og þó að lagatextinn og athugasemdir um einstakar greinar segi að menn eigi engu að tapa á því að flytjast frá einu fyrirtæki til annars, frá því að vera opinberir starfsmenn til þess að vera starfsmenn hlutafélags í eigu ríkisins, þá gefur það auga leið að að breyttu breytanda þurfa menn að taka upp þá samninga. Og það getur ekki nokkur maður tryggt það á þessari stundu með hvaða hætti þessi óbreyttu kjör verða tryggð --- jafnvel ekki fram yfir næstu áramót. Hér er fyrir höndum talsverð vinna hygg ég vera sem nauðsynlegt er að ráðherra hafi forustu um að farið verði í og þá með aðild þeirra sem að þurfa að koma.

Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að frv. leynir engu að síður á sér. 2. gr. frv. opnar algerlega upp á gátt fyrir alla þá möguleika sem handhafa skuldabréfs ríkissjóðs dettur í hug. Þessi grein frv. segir raunverulega að detti ráðherra í hug að skipta þessu hlutafélagi upp í tvö, þrjú, fjögur, tíu eða tuttugu dótturfyrirtæki þá er honum það heimilt. Þess vegna hlýt ég að spyrja hreint út: Hvaða áform og hugmyndir hefur hæstv. ráðherra um það að skipta upp fyrirtækinu í ákveðnar rekstrardeildir? Ekki eingöngu milli þessara tveggja, pósts og síma, heldur heldur jafnvel í langtum fleiri rekstrardeildir? Mun hann hafa samráð við Alþingi um þá skipulagsbreytingu? Mun hann hafa samráð við starfsmenn um þær skipulagsbreytingar og stofnun slíkra dótturfyrirtækja? Hver verður staða starfsmanna þegar þeir hugsanlega innan einhverra mánaða, hugsanlega í árslok fara frá móðurfyrirtækinu yfir til einstakra dótturfyrirtækja? Hefur verið hugsað fyrir því? Eða hvaða mynd hefur hæstv. ráðherra yfirleitt af þessari framtíð, hugsanlega seinna á þessu ári, þ.e. eftir að lögin taka gildi, eða á næsta ári um þetta heildarskipulag póst- og símamála í okkar landi? Þetta frv. segir nákvæmlega ekkert til um það. Þetta frv. svarar ekki þeim spurningum, virðulegi forseti. En það er engu að síður nauðsynlegt að við reynum að nálgast þann kjarna málsins en ekki eingöngu þann þátt sem hér er fyrst og síðast reifaður, þ.e. að ,,háeffa`` B-hluta stofnun ríkisins. Þetta hygg ég að verði að liggja miklu skýrar fyrir en þegar hefur komið fram.

Hér hafa menn staldrað einkum og sér í lagi við þessa tvískiptingu Pósts og síma. Vissulega er það hárrétt að nágrannaþjóðir okkar hafa farið þá leiðina. Þær hafa raunar suma hverjar búið við þá tvískiptingu um langan aldur. Hæstv. ráðherra hafði það á orði hér áðan að hann hefði engin áform uppi um það, a.m.k. í náinni framtíð, að gera slíka skiptingu að veruleika. Ég óska eftir því að hann fari nánar yfir þessar vangaveltur sínar. Hvað þýða þær? Eru þær á einhvern hátt til lengri tíma litið tengdar þeim veruleika að pósturinn skilar ekki hagnaði heldur hefur verið rekinn með halla en síminn hefur aftur á móti skilað umtalsverðum hagnaði eða u.þ.b. hálfum öðrum milljarði á ári og hluta af því er skilað aftur í ríkissjóð? Hangir þetta eitthvað saman við þann veruleika? Eða er þetta tengt þessum áskilnaði um frelsi og samkeppni í símamálum en rétti til áframhaldandi einkareksturs að verulegu leyti á vettvangi póstmálanna? Eða hver er meginástæðan fyrir því að þessi leið var ekki valin? Og hver er meginástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra orðar það svo að í bráð verði ekki gerð tillaga um þennan aðskilnað? Þetta þarf líka að koma fram.

Menn hafa nefnt það í þessari umræðu og að sönnu haft fyrir sér orð hæstv. ráðherra þar um frá í gær og raunar endurtekið í dag og vísa aftur til textans í þessu frv., að það séu engin áform um það að selja hlut í þessu væntanlega hlutafélagi. Hins vegar hefur það verið rifjað upp að í fyrri drögum var það skýlaust í upphaflegum áformum að það ætti að selja hluti. Ég held að það sé ekki verið að ljóstra upp leyndarmáli þegar yfirlýstur vilji hæstv. fjmrh. til þess að koma þessum eignum ríkissjóðs og eignum þjóðarinnar í verð liggur klár og kvitt fyrir og þess vegna er það nauðsynlegt, virðulegi forseti, í ljósi reynslunnar, og það tekur ekki nema dagsstund eða einn eftirmiðdag að taka um það ákvörðun hér að selja hlut í þessu fyrirtæki verði ríkisstjórnarflokkarnir ásáttir um það og geta þá borið við eins og nú tíðkast mjög þegar gömul loforð eru svikin að það standi bara svona illa á í ríkisfjármálum að það megi ekki undan láta í baráttunni við ríkissjóðshallann og þess vegna séu menn hreinlega neyddir til þess að selja, það séu bara breyttar forsendur. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hreint og beint um það: Er það skýrt og klárt að svo lengi sem hann situr sem samgrh. burt séð frá öllu öðru, þá muni hann ekki gera tillögur né styðja tillögur um lipra sölu hlutabréfa í þessu væntanlega fyrirtæki, hvað sem líður breytingum í ríkisfjármálum, erfiðleikum í ríkisrekstri eða hverju öðru? Er það hans kæri vilji og ásetningur? Það verður að vera skýrt. Og það er ástæðan fyrir því að hér er eftir því gengið aftur og aftur.

[15:15]

Ég vil hins vegar að lyktum, virðulegi forseti, fagna því að hæstv. ráðherra hefur opnað fyrir þá umræðu í viðræðum við starfsmenn að hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að semja við starfsmenn nýja hlutafélagsins alla í einu í eigin stéttarfélagi. Það er ekki mjög einfalt mál því að forgangsréttarákvæði þeirra starfsmanna sem nú standa utan Póstmannafélagsins annars vegar og Símamannafélagsins hins vegar kunna að þvælast eitthvað fyrir. En það er þó kannski leysanlegt. Mín skoðun er sú að verði þetta að veruleika, séum við þó betur sett með að starfsmenn þessa fyrirtækis séu í einu og sama félaginu og hafi sameiginlegan samningsrétt við stjórn þessa fyrirtækis sem lýtur forræði hæstv. ráðherra heldur en þeir fari út á hinn almenna markað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þetta held ég að sé mikilvægur þáttur og ég hvet til þess að hann verði nánar gaumgæfður.

Það liggur alveg ljóst fyrir að samgn. þingsins á mikla vinnu fyrir höndum. Mér er til efs á þessu stigi máls að menn ljúki þeirri yfirgripsmiklu vinnu, sem að sumu leyti verður frumvinna, á þessum vordægrum, á þessum dögum sem eftir lifa til miðs maí. Ég á eftir að sjá að það takist. Það þarf að gaumgæfa margt í þessu sem hefur alls ekki verið skoðað nægilega vel.

Hins vegar vil ég segja að mér er fullkomlega ljóst að við þurfum að laga okkur að breyttum tímum, breyttri heimsmynd. Við þurfum við að standast samkeppni erlendra aðila. Við stöndum vel að vígi í fjarskiptaheiminum í dag, bæði hvað varðar Póst og síma og önnur vaxandi fyrirtæki á einkamarkaði. Við höfum því vígi að verja en þurfum að halda áfram að þróa og berjast. En í þessu frv. finnst mér ekki gæta þess metnaðar sem nauðsynlegur er á þessum vettvangi. Hér er bara hjakkað í sama farinu með einfaldri yfirlýsingu um formbreytingu á B-hluta ríkisstofnunar yfir í hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Öllum öðrum stóru álitamálunum er sópað undir teppið og í litlu sem engu svarað. Það eru mín stærstu vonbrigði. En ég mun á hinn bóginn fara yfir þetta frv. málefnalega og reyna að freista þess að koma því í þann vitræna búning sem nauðsynlegt er.