Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:47:56 (3298)

1996-02-27 15:47:56# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. svo að hann hefði tekið undir þau sjónarmið sem Hreinn Loftsson lýsti í viðtali við blað Starfsmanna bandalags ríkis og bæja og var ekki hægt að skilja hv. þm. öðruvísi. Í öðru lagi skildi ég hv. þm. svo að hann teldi rétt að ljósleiðarinn yrði séreign ríkissjóðs. Hafi ég á hinn bóginn misskilið hv. þm. að þetta hafi ekki komið fram í upphaflegri ræðu biðst ég afsökunar á því og er mér það sérlega ljúft og getum við þá orðið sammála um þessa þætti að rétt sé að halda Póst- og símamálastofnun í einu lagi og það sé þá rétt að hlutafélagið taki jafnt til póstþjónustunnar sem fjarskiptaþáttarins.

Hv. þm. vék að því hvort aðskilnaður póstsviðs og fjarskiptasviðs yrði mögulegur strax. Ég kom inn á það í frumræðu minni, sagði að til þess að undirbúa það kæmu upp mörg álitamál. Uppbygging Póst- og símamálastofnunar er ekki með þeim hætti að aðskilnaður á þessum tveim sviðum sé auðveldur fyrirvaralaust. Ég held því fram að hann sé ógerningur þannig að það er þá um það að ræða að fresta málinu í heild sinni ef maður hugsar sér að það eigi að vera skilyrði fyrir því að hefjast handa.

Ég held að það sé líka alveg fullkomlega ljóst að ekki eru forsendur til þess að aðskilja einkaréttarsviðið og samkeppnissviðið, t.d. á sviði fjarskipta vegna þess að einkaréttarsviðið fellur niður 1. jan. 1998 og verður þess vegna einungis um markaðssvið að ræða. Á hinn bóginn hljótum við Íslendingar að gera upp við okkur með hvaða hætti við viljum standa að póstþjónustunni til frambúðar.