Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 16:15:13 (3303)

1996-02-27 16:15:13# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar vissi fyrirspurn hv. þm. að því hver mundi sitja á aðalfundi Pósts og síma hf. ef frv. verður að lögum. Sá sem fer með hlutafjáreign ríkissjóðs er samgrh., það er skýrt, enda er það svo nú að samgrh. fer með yfirstjórn Pósts og síma, auðvitað í umboði ríkisstjórnarinnar og Alþingis og verður ekki breyting á því. Með þessu frv. er því alls ekki verið að auka völd samgrh. Þvert á móti hefur verið gert ráð fyrir að stofnað verði sérstakt hlutafélag sem hafi ákveðna stjórn, sem ráði framkvæmdastjóra eða forstjóra og þar fram eftir götunum í staðinn fyrir samgrh. Frv. gerir því beinlínis ráð fyrir því að dregið sé úr því valdi sem samgrh. hefur á Póst- og símamálastofnun.

Í annan stað spurði hv. þm. að því hvort það væri hægt að tryggja að Póstur og sími gæti til frambúðar greitt 860 millj. í ríkissjóð og haldið stöðu sinni að öðru leyti, verið í fararbroddi á fjarskiptasviði og rekið póstþjónustuna með þeim myndarbrag sem nú er. Auðvitað er ekkert víst í þeim efnum. Samkeppnin á fjarskiptasviði er ógnarlega mikil, breytileg og vaxandi. Og samkeppnin á póstsviðinu er líka vaxandi. Bankarnir amast t.d. mjög við því að Pósturinn skuli annast póstgíró. Við getum því ekki fyrir fram slegið því föstu að afrakstur Pósts og síma verði til langframa jafngóður. Það er ekki hægt að setja lög um það á Alþingi. Það er undir rekstrinum komið hverjar greiðslurnar verða til ríkisins. Arðurinn af hlutabréfinu verður auðvitað í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar og þá samgrh., í samræmi og innan þeirra marka sem hlutabréfalögin setja.