Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:26:00 (3316)

1996-02-27 17:26:00# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:26]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hv. síðasti ræðumaður geri aðeins betur grein fyrir þeim hugmyndum sem lágu að baki þeirri skoðun hans að það væri æskilegra að stjórn Pósts og síma hf. yrði skipuð af Alþingi frekar en af þeim ráðherra sem fer með málaflokkinn. Mér fannst að hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, hefði tekið undir athugasemd hv. 18. þm. Reykv., Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, að það væri æskilegra að Alþingi kysi stjórn yfir Pósti og síma.

Nú höfum við dæmi um það, t.d. í ríkisbönkunum, að skipaðar séu stjórnir af Alþingi yfir bankana en bankamálaráðherra er með ábyrgð á þeim málaflokki. Þetta hefur svo oftar en einu sinni leitt til þess að stjórnskipuleg ábyrgð verður loðin. Bankarnir heyra undir bankaráðherrann en það er hægt að kenna þingkjörnum stjórnum þeirra um það sem aflaga fer þar. Ef þessi hugmynd þingmannsins næði fram að ganga yrði Alþingi ábyrgt fyrir stjórn Pósts og síma hf. en ekki sá ráðherra sem fer með þennan málaflokk. Það hefur nú frekar verið tilhneiging í þá átt að draga úr þessum hagsmunaárekstri og gera skilin skarpari á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Þess vegna kemur mér þetta svolítið á óvart af hálfu hv. þm. miðað við ákveðin frv. sem hann hefur sjálfur lagt fram sem umhvrh. Ég hefði viljað fá skýringu á þessu.