Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:30:00 (3320)

1996-02-27 17:30:00# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:30]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, vék aftur að þeim dómi sem nýfallinn er í héraðsdómi Reykjavíkur varðandi fyrrum starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins og vildi halda því fram að það væri blindandi hægt að yfirfæra þann dóm á starfsmenn Pósts og síma eins og frv. til laga um stofnun hlutafélagsins Póstur og sími liggur fyrir. Ég er ekki sammála hv. þm. um það. Það er sá mikli munur á því frv. sem hér liggur fyrir og lögunum um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins að í 7. gr. þeirra laga er kveðið á um að ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eigi ekki við, en í því frv. sem hér liggur fyrir er þvert á móti sagt að sú grein eigi við, en á hinn bóginn muni biðlaunarétturinn haldast hjá hlutafélaginu Póstur og sími hf. Ég er þeirrar skoðunar að af því að þessi breyting er almenn um þetta fólk muni hún standast. Við erum að tala um mikinn fjölda manna og ég tel að það muni halda. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að það er vafalaust að hægt væri að takmarka biðlaunaréttinn með því að reglan yrði almenn eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem samið hefur verið um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og mér heyrðist á ummælum þingmannsins áðan að hann hefði kynnt sér.