Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:32:03 (3321)

1996-02-27 17:32:03# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki nudda hæstv. samgrh. því um nasir að hann hafi ekki frá hendi skapara síns skilningarvitin til þess að skilja það sem hér stendur. Það getur ekki verið ótvíræðara.

Það er alveg ljóst samkvæmt úrskurði dómsins að starf hjá hlutafélagi sem er 100% í eigu ríkisins telst ekki sambærilegt starf og það sem viðkomandi hafði áður hjá ríkinu þó að hann hafi sömu laun, þó að hann sitji í sama stól, á sömu skrifstofu. Formbreytingin er staðreynd og það má m.a. vísa til þess að þróun lífeyrisréttinda verður öðruvísi í framtíðinni eftir að breytingin hefur orðið.

Í annan stað er það líka alveg ljóst að biðlaunarétturinn, a.m.k. samkvæmt 2. mgr. 8. gr. og jafnvel fleiri málsgreinum hennar, er skilyrtur. Þar með er það alveg ljóst að starfsmenn Pósts og síma eftir breytinguna og þegar hún á sér stað njóta ekki fullkomins réttar á við aðra opinbera starfsmenn. Þar með á við þá það sem segir í úrskurði dómsins að slíkar greinar brjóta gegn viðurkenndri reglu um jafnræði þegnanna.

Herra forseti. Ég hef ekkert vit á lögfræði en ég hélt að hæstv. samgrh. væri lögvís maður. Þetta skilur hvert mannsbarn. Málið er einfaldlega það að hæstv. samgrh. hefur annað tveggja vísvitandi komið fram með frv. sem stangast á við það sem dómstólarnir segja að sé rétt ellegar hann hefur ekki unnið heimavinnuna sína. Mér er nákvæmlega sama hvort er rétt. Það sem ég veit er hins vegar þetta: Þetta frv. gengur ekki samkvæmt úrskurði dómara landsins. Svo einfalt er það. Og hvaða flokkur er það, herra forseti, sem hefur að einkunnarorðum: ,,Með lögum skal land byggja``? Vill hæstv. samgrh. rifja það upp fyrir mér?