Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:34:14 (3322)

1996-02-27 17:34:14# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er sem ég sagði hér er auðvitað kjarni málsins. Hér erum við að tala um það að biðlaunarétturinn falli ekki niður, heldur eigi hann áfram við. Mér þykir satt að segja hálfundarlegt að hv. þm. skuli endurtaka hér og þrástagast á hinu sama og halda því fram að hér sé um algjörlega sambærileg efnisatriði að ræða og algjörlega sambærileg ákvæði. Það er ekki svo. Það eru ósannindi.

Á hinn bóginn liggur fyrir lögfræðilegt álit um það að ákvæðið eins og það er í frv. standist þá hugsun sem lá á bak við ákvæðið um biðlaun á sínum tíma og það er skoðun þess lögfræðings sem það skrifaði að það standist fyrir dómi þannig að þetta mál hefur verið athugað sérstaklega. Ég vil í allri vinsemd biðja hv. þm. að kynna sér þau plögg sem ég skal senda honum áður en hann hefur fleiri orð hér uppi.