Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:35:28 (3323)

1996-02-27 17:35:28# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið ráðherra. Ég veit að undir svona kringumstæðum er hægt að búa til hvaða lögfræðiálit sem er. Þau eru ekki túskildingsvirði. Það er svo einfalt mál. Og þegar ég var í því hlutverki fyrir síðustu ríkisstjórn að fara með tvö slík frumvörp í gegnum þingið, þá voru einir tveir eða þrír lögfræðingar fjmrn. sem töldu mér trú um að ég væri að gera rétt og það voru tíndar til einhverjar skrauthúfur úr hópi hæstaréttarlögmanna. Síðan voru einhverjir aðrir sem voru á móti og við vorum þeirrar skoðunar að það væri ekkert að marka þá af því að þeir væru lögfræðingar hagsmunaaðila, þ.e. stéttarfélaganna. En það kom bara í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér.

Málið er, hæstv. samgrh., það kann vel að vera að þegar allt er skorið til hjarta og nýrnanna, þá hafi ráðherrann rétt fyrir sér og ég rangt. En miðað við úrskurð í undirrétti, þá hef ég rétt fyrir mér og þangað til hæstv. fjmrh. hefur áfrýjað málinu (Gripið fram í.) og fengið niðurstöðu sér í vil, þá er það þannig að þetta frv. er í andstöðu við úrskurð íslenskra dómstóla. Og ætlar hæstv. samgrh. að standa í því hér að verja frv. sem liggur fyrir að er í blóra við úrskurði íslenskra dómstóla? Ég þekkti hann að öðrum dreng hér áður fyrr. (Samgrh.: Málinu hefur verið áfrýjað.)