Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:56:52 (3325)

1996-02-27 17:56:52# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. sagði um að ég hefði talið nauðsynlegt að breyta lögum frá 1954, um réttindi opinberra starfsmanna. Það er alger reginfirra og allur meginþungi minnar ræðu var einmitt sá að það væri ríkisstjórnin sem ætlaði sér að gera það. Ég sagði hins vegar að út frá lögmálum rökfræðinnar mundi ekki vera hægt fyrir ríkisstjórnina að fá þessi lög samþykkt þannig að dómur yrði ekki kveðinn upp svipaður SR-dómnum á grundvelli þeirra nema það yrði gert. Það er náttúrlega gríðarleg breyting á því.

En vegna þess að hv. þm. ræddi um SR og taldi að það væri munur á því sem segir í 7. gr. frv. til laga um breytingu á högum Síldarverksmiðjanna og því sem segir í 8. gr. þessa frv., þá langar mig til þess að lesa þar sem sagði í 7. gr. frv. um síldarverksmiðjur ríkisins, með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá verksmiðjunum. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``

Þetta segir hv. þm. að sé efnislega öðruvísi en 8. gr. vegna þess að í 8. gr. er gert ráð fyrir því að öll réttindi flytjist með eins og ekki hafi orðið um formbreytingu að ræða. Nú langar mig til að lesa greinargerð með 7. gr. sem ég var að lesa áðan vegna þess að hún gerir ráð fyrir nákvæmlega því sama. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Greininni er ætlað að tryggja föstum starfsmönnum SR sömu störf hjá nýja félaginu við stofnun þess og þeir gegna nú. Engin breyting verður því á atvinnumöguleikum, launum eða lífeyrisréttindum starfsmanna.``

Nákvæmlega það sama. Samt sem áður fellur dómur sem segir: Þetta er ekki sambærileg staða. Það má velta fyrir sér af hverju það er. Er það vegna þess að biðlaunin eru í rauninni ekki laun heldur skaðabætur sem er verið að greiða mönnum m.a. fyrir missi atvinnuöryggis? Gætum við orðið sammála um að atvinnuöryggi mundi breytast við það að þetta yrði að hlutafélagi? Ég er ekki viss um það. Það kann að vera. Það þyrfti að skoða.

Það er ýmislegt fleira sem ég gæti nefnt þessu til staðfestu. Mig langar líka að spyrja hv. þm. en kannski er það ekki sanngjarnt að ég spyrji hann. Er það svo að hjá hinu nýja hlutafélagi muni menn halda áfram að vinna sér inn lífeyrisréttindi t.d.? Er fæðingarorlof hið sama o.s.frv.? En það sem mestu máli skiptir er að hann hefur lýst því yfir fyrir hönd hv. samgn. að þessi mál verði skoðuð mjög rækilega. Það er gott.