Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:59:47 (3326)

1996-02-27 17:59:47# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einmitt að það sem hv. las upp sýni og undirstriki að það er verulegur munur á annars vegar þeim lagatexta sem hann vitnaði til varðandi SR-mjöl eða Síldarverksmiðjur ríkisins og hins vegar því frv. sem við erum að ræða. Ég tel að frv. sem er hér til umfjöllunar taki miklu betur á þessu máli en lögin gera enda er frv. að hluta til samið í ljósi þess dóms sem féll í SR-málinu og menn höfðu til hliðsjónar. Ég veit að hv. þm. er brenndur af biturri reynslu af því að treysta á lögfræðinga og gefur ekki mikið fyrir lögfræðiálit sem hann kallaði held ég silkihúfur í hógværð sinni áðan. Engu að síður er það svo að það er álit þess lögmanns sem hæstv. samgrh. hefur stuðst við við undirbúning þessa máls og hefur komið að fleiri slíkum málum, að eins og frumvarpsgreinin lítur hér út, standist hún þessa skoðun. Ég verð samt sem áður að segja að ég varð auðvitað var við að hv. þm. var að undirbúa sig undir lítinn slag um frv. sem hæstv. forsrh. hefur boðað. Ég skildi þó ekki alveg þá hugsun hjá hv. þm. að tala annars vegar fyrir hlutafélagavæðingu en vekja samt sem áður athygli á því að þetta frv. stæðist ekki gagnvart þeim lögum sem í gildi eru varðandi opinbera starfsmenn. Maður hlýtur því að álykta sem svo að hv. þm. segi: Við skulum láta þetta yfir okkur ganga. Öll biðlaun verða greidd með þeim kostnaði sem því fylgja, ellegar þarf að breyta þessum lögum.