Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:29:19 (3331)

1996-02-27 18:29:19# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:29]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. samgrh. sagði á þessum umrædda fundi að það kæmi ekki síður til greina að stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins sem lúti almennum lögmálum markaðarins. En ég hygg að hæstv. ráðherra hafi ekki gert svo lítið eftir kosningar að kanna þennan kost. Þessi leið var farin eins og ég sagði í Frakklandi og Lúxemborg og það var almennt viðurkennt að það væri um mjög stórt skref að ræða og að það form væri ekki síður heppilegt til þess að það væri hægt að mæta þeirri öru tækniþróum sem við erum að tala um. Það stendur í plöggum sem eru væntanlega komin frá samgrn. að ég hygg að vafalítið megi rekja það til áhrifa starfsmanna að þetta form varð fyrir valinu þegar sjálfstæði póst- og símaþjónustunnar var aukið í Frakklandi. Það er ljóst að þar hefur verið hlustað á starfsfólkið sem hefur reynslu í þessum efnum, en hæstv. ráðherra ætlar greinilega ekkert að nýta sér þekkingu starfsfólksins á þessu sviði. Það er vissulega miður.

Ég er fegin því, herra forseti, að hæstv. ráðherra notaði ekki þetta andsvar til einhverra útúrsnúninga varðandi aðrar mikilvægar spurningar sem ég lagði fyrir hann og vænti þess að hann muni þá í ítarlegu máli á eftir gera grein fyrir afstöðu sinni til þeirra og þá á ég sérstaklega við um stöðu starfsfólksins og spurningar sem ég lagði fyrir ráðherrann í því efni.