Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:31:00 (3332)

1996-02-27 18:31:00# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af því sem ég sagði áðan um fundinn í Sjálfstæðishúsinu fyrir kosningar, þá lýsti hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, því yfir, eins og ég man fundinn, að í hennar huga kæmi ekki til greina að breyta Póst- og símamálastofnun í fyrirtæki sem starfaði á markaðsgrundvelli. Væri fróðlegt að sjá ef einhverjar perlur væru til í þessu blaði um það sem eftir hv. þm. var haft. Ég man ekki betur en því hafi jafnframt verið flaggað að Alþfl. í heild sinni væri á móti því að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag og mér fannst hv. þm. hálfvegis með brosi sínu staðfesta að hafa átt þátt í þeirri samþykkt meðan hann var í Alþfl.

Við vorum saman í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og þá kom ljóst fram á fundum ríkisstjórnarinnar að hv. þm. vildi halda óbreyttri stöðu Póst- og símamálastofnunar. Ég hygg þess vegna að það sé ljóst að við erum að tala út frá mjög ólíkum sjónarhornum. Hv. þm. lýsti því yfir fyrir kosningar að hann vildi óbreytta stöðu Póst- og símamálastofnunar eins og ég man það, óbreytta stöðu, vildi ekki breyta Póst- og símamálastofnun í fyrirtæki sem starfar á markaðsgrundvelli. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að talaði um hlutafélag í því sambandi og er ljóst að ef rekstrarform yrði annað en kæmi að sama gagni, þá er ég ekki bókstafstrúarmaður að því leyti til. Í íslenskri löggjöf eru hins vegar ekki til nein ákvæði um slík fyrirtæki eða slíkt rekstrarform fyrirtækja.