Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:34:50 (3334)

1996-02-27 18:34:50# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, SF
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:34]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Mikil þróun á sér stað innan fjarskiptatækninnar um allan heim. Hin mikla tækniþróun og aukið frjálsræði hefur aukið samkeppni milli fyrirtækja í fjarskipta- og póstþjónustu. Sú samkeppni nær milli landa og innan landanna sjálfra. Samkeppnin mun aukast verulega 1. jan. 1998, en þá mun allur einkaréttur í fjarskiptum falla niður innan Evrópusambandsins.

Víða í nágrannalöndum okkar hafa menn verið að minnka afskipti ríkisins af fjarskipta- og póstþjónustu, oft í formi hlutafélagavæðingar. Nú er svo komið víða í Vestur-Evrópu að póst- og símaþjónusta er veitt af sjálfstæðum atvinnufyrirtækjum en ekki ríkisstofnunum eins og áður var. Það er því ekki nema eðlilegt að við Íslendingar skoðum okkar hug í þessum efnum.

Hér innan lands hefur verið fylgst með þróun fjarskipta og höfum við nú búnað og þekkingu á fjarskiptamálum á valdi okkar eins og best gerist í Evrópu. Það er mjög brýnt að okkar Póst- og símamálastofnun sé viðbúin þeirri miklu samkeppni sem búast má við, sérstaklega á sviði fjarskipta. Tæknin er orðin það mikil að hægt er að bjóða fullkomna fjarskiptaþjónustu á einangruðum og afskekktum svæðum án óhóflegs kostnaðar og þetta þýðir að jafnvel íslenski markaðurinn er ekki út úr kortinu hjá erlendum fjarskiptafélögum þótt hann sé lítill. Við megum búast við stóraukinni samkeppni, bæði af hálfu erlendra og innlendra aðila á næstu árum.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú ákveðið að breyta Pósti og síma í hlutafélag í eigu ríkisins. Það hlutafélag yrði ekki hægt að selja nema Alþingi ákvæði slíkt á seinni stigum. Ekkert slíkt er á döfinni að mínu mati. Þó tel ég líklegt að þróunin gæti orðið sú að hinu nýja hlutafélagi yrði skipt upp í tvö sjálfstæð hlutafélög. Væntanlega kæmi síðar upp krafa um að selja hlutabréf í Símanum hf. á frjálsum markaði þar sem hann verður í mun meiri samkeppni en póstþjónustan. Alþingi þyrfti að taka á því máli, en það má vera að slíkt yrði æskilegt. Ef þróunin verður slík, sem ég tel að ekki sé hægt að útiloka, þá tel ég að ekki sé æskilegt að seld yrðu nema 49% hlutabréfa á frjálsum markaði þannig að ríkið færi með meirihlutavald innan fyrirtækisins. Það er mikilvægt að breytingar á rekstri ríkisstofnana verði gerðar í skrefum þannig að fyrirtækin geti aðlagast breyttum aðstæðum með eðlilegum hætti.

Sú hlutafélagavæðing sem nú stendur fyrir dyrum gerir ákvarðanatöku Pósts og síma sveigjanlegri eins og margoft hefur verið komið inn á í dag. Stjórnendur og starfsfólk geta brugðist hraðar við síbreytilegum aðstæðum á markaðnum. Það verður því betur í stakk búið að taka þátt í samkeppninni. Einnig má búast við að sjálfstæð fyrirtæki geti boðið upp á betri og ódýrari þjónustu en núverandi form. Það má einnig segja að langtímahagsmunir starfsfólksins hljóti að vera þeir að fyrirtæki geti lifað af samkeppni og dafnað. Það eru ekki hagsmunir þess að fyrirtækið dragist aftur úr og hugsanlega tapi samkeppni gagnvart erlendum aðilum. Mér skilst samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið varðandi það hvernig tekið var á sambærilegum málum í Danmörku að þar hafi starfsmenn talið farsælla að póst- og símaþjónustan yrði færð frá því að vera ríkisstofnun yfir í sjálfstætt fyrirtæki sem gæti tekist á við nýjar aðstæður á markaði.

Það er hins vegar eitt atriði sem hefur sótt á mig í frv. ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Af hverju er verið að breyta ríkisstofnuninni Pósti og síma í eitt hlutafélag? Af hverju er stofnuninni ekki skipt upp í tvennt, í tvö sjálfstæð hlutafélög? Eða símanum er breytt í hlutafélög en pósturinn látinn bíða eða gerður að sjálfstæðu fyrirtæki eins og í Danmörku? Þar er pósturinn sjálfstætt fyrirtæki í eigu danska ríkisins og um hann gilda sérstök lög. Fyrirtækið er ekki á fjárlögum og starfsmenn eru ríkisstarfsmenn. Formið gengur ekki í berhögg við reglur Evrópusambandsins um póstþjónustu. Stjórnin er skipuð níu mönnum, sex frá ráðherra og þremur frá starfsmönnum.

Síma- og póstmál eru ekkert sérstaklega tengd eða skyld. Af hverju á að vera sameiginleg stjórn þessara tveggja mismunandi eininga? Er ekki líklegra að síminn njóti sín sjálfstætt og pósturinn líka? Það er að mínu mati mjög líklegt að Póstur og sími verði aðskilinn í tvö hlutafélög bráðlega eins og hér hefur komið fram. En af hverju má ekki stíga það skref strax?

Hæstv. ráðherra hefur sagt að það sé óráðlegt, það tæki of mikinn tíma og væri flókið. Hins vegar veit ég til þess að það hefur verið að verulegu leyti greitt úr slíkum málum, m.a. í bókhaldi Pósts og síma og er sú vinna langt komin. Það getur varla verið svo flókið að skipta fyrirtækinu upp. Er ekki eðlilegra og hagkvæmara að skipta því í tvö félög, annað sæi um póstþjónustuna en hitt um fjarskiptaþjónustuna? Fyrirtækin yrðu hvort í sínu lagi heilsteyptari, markvissari og samhentari en það mundi skila sér í betri rekstri.

Þau rök hafa heyrst að síminn skili afgangi en pósturinn sé rekinn með halla og því sé eðlilegt að Póstur og sími séu í sama hlutafélagi. Þessi rök tel ég alls ekki nægjanleg. Ég vona að samgn., sem fær frv. í vinnslu, skoði mjög vandlega hvort ekki sé rétt að skipta Pósti og síma strax í tvö aðskilin félög.

En er hægt samhliða breytingu Pósts og síma í hlutafélag að jafna símkostnað yfir landið? Landið er ekki stórt. Má ekki einmitt núna nota tækifærið og skilyrða þjónustu símans þannig að neytendum verði ekki mismunað eftir búsetu? Þegar síminn í Noregi var hlutafélagavæddur eða Telenor var stofnað, þá skilst mér að gengið hafi verið út frá því skilyrði að Telenor tryggði að símagjaldskrá í dreifbýli yrði lækkuð. Slíka leið ætti einnig að skoða hér. Hér hefur reyndar komið fram í máli hæstv. ráðherra að jöfnun sé á dagskrá, en það hefur ekkert verið skilgreint nánar.

Herra forseti. Ég tel rétt að stjórnvöld bregðist við þeirri samkeppni sem fyrirsjáanleg er, sérstaklega í fjarskiptum, en ég set spurningarmerki við það að setja Póst og síma í eitt hlutafélag. Það er von mín að samgn. skoði hvort aðrar leiðir sem ég hef bent á séu ekki hagkvæmari til lengri tíma litið.