Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:42:04 (3335)

1996-02-27 18:42:04# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:42]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Tæknin tekur örum breytingum. Hratt flýgur stund. Einkavæðum Póst og síma. Þetta er inntakið í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag og étur hver upp eftir öðrum án þess að menn færi rök fyrir sínu máli. Mér finnst hægt að nálgast þessa umræðu út frá tveimur sjónarhornum: Annars vegar er um að ræða þjónustustofnun sem snertir líf okkar allra. Hún snertir okkur sem notendur þessarar þjónustu og hún snertir okkur sem eigendur þessarar stofnunar.

Í öðru lagi er hægt að líta á Póst og síma sem einn fjölmennasta vinnustað í landinu og skoða málin út frá hagsmunum þeirra sem starfa á þessum vinnustað. Það hefur verið gert og í máli sumra hv. þm. með ágætri röksemdafærslu í dag. Það hafa verið settar fram spurningar sem menn vilja fá svör við áður en endanlega er gengið frá þessum málum.

Í því frv. sem hér er til umræðu eru alvarlegar brotalamir að því leyti sem þarf að skoða nánar, t.d. hvað varðar biðlaunaréttinn og skírskotun til lífeyrisréttinda, en þar er einnig að finna mjög jákvæða hluti. T.d. segir í 8. gr. frv.:

,,Fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeir boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni.``

Í athugasemdum sem fylgja frv. er einnig að þessu vikið og sagt á þá leið að starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar verði tryggð sambærileg kjör þeim sem þeir áður nutu hjá Póst- og símamálastofnun. Og í skýringu við 8. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Með ákvæðinu eru viðurkennd þau réttindi, sem starfsmenn höfðu áður áunnið sér hjá stofnuninni fyrir stofnun félagsins.``

Þetta þykir mér mjög jákvætt, góð og jákvæð nálgun og ég fagna því sem kom fram í framsöguræðu hæstv. samgrh. að á næstu dögum verði sest niður með fulltrúum starfsmanna Pósts og síma, farið rækilega yfir þessi mál og kannað með hvaða hætti verði hægt að tryggja þau markmið sem hér eru sett á blað. Þessu fagna ég.

[18:45]

Hinu fagna ég ekki hvað ríkisstjórnin er að gera gagnvart þeim réttindum sem hér er vísað til vegna þess að allt réttindakerfi starfsmanna ríkisins er í uppnámi eftir að ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún hygðist taka allan lagabálkinn um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna upp með rótum, lífeyrisréttindin einnig. Þar er boðuð stórfelld réttinda- og kjaraskerðing sem gerir því miður ágætar yfirlýsingar og ágæt markmið, sem sett eru á blað í þessu frv. og ég vísaði til, harla lítils virði. Þess vegna er algerlega útilokað að afgreiða þessi lög áður en botn er fenginn í þetta. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa á þessu stigi um þennan þátt málsins, þ.e. vinnustaðinn og réttindi starfsfólksins.

Þá vil ég víkja að hinum liðnum, þjónustustofnuninni Pósti og síma sem snertir líf okkar allra sem notenda þessarar þjónustu og sem eigenda þessarar stofnunar. Þegar litið er á starfsemi Pósts og síma hefur komið fram í máli þeirra sem hér hafa fjallað um, í greinargerð sem fylgir frv. og í flestum samanburðarfræðum, sem sett hafa verið fram í skýrsluformi um Póst og síma á liðnum árum, að þessi íslenska stofnun stendur sig afar vel. Ísland er með lægstu innanlandssímgjöld í gervöllu OECD. Við erum búin að farsímavæða allt landið. Við erum búin að leggja ljósleiðara um allt Ísland. Svo standa menn í röðum í allan dag og segja að það þurfi meiri sveigjanleika. Við erum að verða vitni að því að þessi íslenska stofnun stendur jafnfætis þeim stofnunum og þeim sem eru miklu stærri erlendum hvað tækniframþróun snertir. Eru það þá einhverjir alþjóðlegir samningar sem knýja okkur til þessara breytinga? Það eru engir alþjóðlegir samningar sem knýja okkur til þessara breytinga. Ég fullyrði það. Ég fullyrði að samningar um Evrópska efnahagssvæðið gera engar kröfur á okkur um eignarhald á stofnuninni. Skyldi það rekstrarform sem við búum við standast samkeppnislög? Já, það gerir það. Það þarf engar breytingar að gera á eignarhaldinu gagnvart samkeppnisráði.

Hvað þá með eigendur stofnunarinnar, skattgreiðendur? Þarf að breyta einhverju þeim til hagsbóta? Póstur og sími fær ekki eina einustu krónu úr ríkissjóði. Hún skilar hins vegar 1.000 millj. kr. á hverju ári inn í ríkissjóð. Halda menn að þær krónur yrðu fleiri eftir þessa formbreytingu? Ég held ekki. Jú, kunna menn að svara á móti. Við getum náð þessum peningum í gegnum skattgreiðslur og arðgreiðslur. Arðgreiðslur, hve lengi? Ekki mjög lengi samkvæmt orðum Hreins Loftssonar, formanns einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, sem segir í BSRB-tíðindum, með leyfi forseta:

,,Sumir segja að rekstrarformið skipti öllu en ekki eignarhaldið. Ég er annarrar skoðunar. Það er eignarhaldið sem skiptir öllu. Þetta eru aðskildar ákvarðanir í tíma. Það er í mörgum tilvikum skynsamlegt að breyta rekstrarformum fyrirtækja fyrst og gera þau að góðri söluvöru áður en þau eru seld. Nokkur ár geta liðið þarna á milli. Menn eiga að hafa þetta í huga. Reynsla erlendra sérfræðinga er einungis sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag sé ætlunin að selja það. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.`` Heiðarlegur maður, Hreinn Loftsson. Formaður einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar talar hreint út.

Hér hefur verið vitnað í ferðalag þingmanna til Skandinavíu til að kynna sér málin og vísað þar í að starfsmenn hefðu óskað sérstaklega eftir þessari breytingu. Hvaða starfsmenn? Það voru yfirmennirnir. Ekki voru það félög starfsmanna sem óskuðu eftir þessu. Þau hafa verið andvíg þessum breytingum og þar er búið að selja hlutabréfin í danska símafyrirtækinu sem skilaði í fyrra yfir 10 milljörðum íslenskra króna í arð. Hvert skyldu 300--400 millj. af þessum 10 milljörðum fara? Þær fara til Bandaríkjanna. Hvers vegna? Vegna þess að það er búið að selja hlutabréfin til Bandaríkjanna. Í Noregi var okkur sagt að hlutabréfin yrðu aldrei seld. Það er verið að auglýsa þau núna. Tveir plús tveir eru fjórir, hvort sem við erum í Noregi, Nýja-Sjálandi eða á Íslandi. Svo eru menn að tala um sveigjanleika. Er það sveigjanlegra fyrirkomulag sem verið er að búa til? Jú, kannski. Undir eignarhaldi eins ráðherra sem fer með eitt hlutabréf, sjö manna stjórn.

Mér er spurn: Hvað erum við að tala um hérna? Við erum að tala um fyrirtæki með eigið fé upp á 15 milljarða. Ef menn ætla að fara út í annað rekstrarform þurfa menn að ganga þá leið til enda og tryggja eftirlit markaðarins sem menn eru að sækja inn á. Hvernig er það gert? Það er með eftirliti þeirra sem eiga hlutabréfin. Í því felst markaðsvæðingin. Skilja menn þetta ekki? Það er málið. Það eru kostir markaðarins ef menn ætla að fara út á þá braut að taka þetta undan lýðræðislegri stjórn Íslendinga sem eiga þetta fyrirtæki. Ég vara við blekkingum af því tagi sem hér eru uppi í málflutningi. Eða á þetta fyrirtæki með 15 milljarða í eigið fé að vera það sveigjanlegt að ekki megi nokkur maður líta þar inn í bókhaldið eða inn í reksturinn? Hvert eru menn eiginlega að fara? Mér er spurn. Hvað er það sem hæstv. ráðherra Halldór Blöndal getur gert á morgun þegar hann situr einn að hlutabréfunum sem íslenska ríkisstjórnin getur ekki gert í dag?

Ég vil í stuttu máli segja þetta: Við erum með lægstu innanlandssímgjöld innan OECD. Við erum með stofnun sem er undir lýðræðislegu valdi. Við erum með stofnun sem er sveigjanleg í rekstri og hefur sannarlega verið það. Við erum með stofnun sem hefur skilað miklum fjármunum inn í ríkissjóð, inn í sameiginlega sjóði okkar. Hvar skyldi sönnunarbyrðin hvíla? Hvort skyldi hún hvíla hjá þeim sem vilja viðhalda því fyrirkomulagi sem við búum við eða hjá hinum sem vilja breyta því? Skyldi hún ekki hvíla þar? Hingað kom hins vegar maður sem þekkti vel til þessara mála, til einkavæðingarumræðunnar víðs vegar um heiminn og hafði alveg sérstaklega kynnt sér símastofnanir í því efni. Hann var spurður: En hvers vegna í ósköpunum eru menn þá að gera þetta? Jú, sagði hann. Dýrin gera það. Meira að segja býflugurnar gera það. Allir gera það. Við hljótum að gera það. Er ekki kominn tími til að menn færi rök fyrir sínu máli? Mér finnst það.