Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:10:56 (3338)

1996-02-27 19:10:56# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:10]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við síðasta hluta ræðu hæstv. samgrh., þar sem hann ræddi um launakjör opinberra starfsmanna. Ég hef sömu reynslu og hæstv. ráðherra að hafa verið opinber starfsmaður. Ég hélt að allir opinberir starfsmenn könnuðust við það að þau réttindi sem þeir hafa umfram aðrar stéttir í samfélaginu hafa einmitt verið metin til launa. Það rifjaðist upp fyrir mér að í sumar reiknaði annar af hagfræðingum Alþýðusambandsins það út hvað lífeyrisréttur alþingismanna þýddi í launum. Ef ég man rétt þá sagði hann mér í þessari blaðagrein í Morgunblaðinu að ég hefði 350 þús. kr. í laun á mánuði sem ég kannast alls ekki við. Það kom ekki heim og saman við minn launaseðil. En allir vita að þessi réttindi hafa verið metin til launa og að launakjörum opinberra starfsmanna hefur verið haldið niðri í krafti þessara réttinda sem þeir hafa vissulega umfram aðra. Ég vil því mótmæla þessari túlkun hæstv. samgrh.