Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:28:38 (3344)

1996-02-27 19:28:38# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:28]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um það hvað hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggur sig fram um að fá svör til að hún geti hjálpað mér að koma málinu gegnum þingið eða greitt fyrir því eins og hv. þm. orðar það.

Fyrst sagði hv. þm. að ég ætlaði nú fyrst að láta hefja viðræður við starfsfólk Pósts og síma. Það er ekki rétt. Ég hygg að það hafi verið um mánaðamótin júní/júlí á síðasta sumri sem þær viðræður hófust og hafa staðið eins og efni hafa gefið tilefni til. Það er rétt að það dróst nokkuð á langinn að frv. yrði lagt fram og þá lágu viðræður niðri. En eins og ég sagði þá verða þær teknar upp nú að nýju á næstu dögum svo það svarar því. En það liggur auðvitað fyrir eins og hv. þm. veit að Alþingi hlýtur að taka afstöðu til frv.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um hvernig staðið yrði að samningsmálum við starfsfólk Póst- og símamálastofnunar. Um það er það eitt að segja sem ég sagði áðan að ég vil ræða um það við starfsfólk Pósts og síma hf. Ég hef rætt um það sérstaklega að ég sé til viðræðu um það að samningsaðilinn verði annars vegar Póstur og sími hf. og hins vegar samtök starfsfólks Pósts og síma með viðlíka hætti og nú er hjá ríkisbönkunum og það svarar þeirri spurningu.

[19:30]

Hv. þm. spurði um 8. gr. Eins og fram hefur komið hvað eftir annað í viðræðum þá held ég að efni þeirrar greinar liggi skýrt fyrir. Auðvitað verður um að ræða persónubundinn samningsrétt hvers einstaks enda er gert ráð fyrir því að menn flytji réttindin með sér til Pósts og síma hf. þannig að nauðsynlegt er að skilgreina og setja niður í hverju hann er fólginn.

Hv. þm. spurði hvernig færi um samninga um áramót. Samningar eru almennt lausir um áramót. Í sambandi við þá spurningu skírskota ég enn til þess að við erum að hefja viðræður við fulltrúa starfsmannafélaga Póst- og símamálastofnunar, síðar Pósts og síma hf., nú á næstu dögum. Það vísar til þess.

Hv. þm. spurði hvernig haldið yrði á 13. gr. Pósti og síma hf. er skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu fyrir landsmenn sem nánar er skilgreind í reglugerð sem ráðherra setur. Þetta er auðvitað eitt af þeim atriðum sem fellur undir þær sömu viðræður.

Hv. þm. spurði hvernig færi um stöður æðstu embættismanna Pósts og síma eftir að fyrirtækið verður hlutafélag. Það kemur skýrt fram í 8. gr. að menn skulu eiga rétt á hliðstæðum störfum. Auðvitað hlýtur að verða auglýst eftir sem áður hver verði forstjóri Póst- og símamálastofnunar. Það er augljóst vegna eðli málsins.

Í sjöunda lagi spurði hv. þm. hvort ég væri meðmæltur því að fulltrúi starfsfólks sæti í stjórn. Frv. gerir ekki ráð fyrir því.

Í áttunda lagi spurði hv. þm. hvort tekjur ríkissjóðs yrðu hinar sömu eftir að fyrirtækið verður hlutafélag. Það getur auðvitað enginn sagt um það fyrir fram hver verði arður af hlutafélagi. Fyrr í dag spurði hv. þm. hvernig stæði á því að ekki væri búið að skrifa upp efnahagsreikning nýs hlutafélags, Pósts og síma hf., miðað við 1. júlí nk. Það er náttúrlega svo að þótt unnið hafi verið að því að endurmeta eignir Póst- og símamálastofnunar, skuldbindingar og viðskiptavild, og unnið sé að því að leggja mat á aðra skulda- og eignaliði efnahagsreiknings er ekki frá slíkum málum gengið fyrr en í lokin. Í 5. gr. er kveðið á um það hverjir skuli meta þessi atriði lögum samkvæmt. Það breytir því ekki að undirbúningsvinnan hefur verið lengi í gangi enda væri ógerningur að skila niðurstöðu á þessum tíma ef verkið væri allt óunnið eins og hv. þm. gaf í skyn.

Í níunda lagi hafði hv. þm. einhvern grun um að gjaldskrár mundu hækka ef Póst- og símamálastofnun yrði breytt í hlutafélag. Ég get ekki svarað því hvaðan slíkar hugrenningar koma. Ég kannast ekki við þær.

Hv. þm. spurði um 14. gr. Þar er talað um að ef ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að ráðast í einhverjar sérstakar aðgerðir eða framkvæmdir er opnað fyrir þann möguleika að ríkisstjórnin greiði fyrir það.

Loks spurði hv. þm. hvort ég gæti ákveðið að hlutafé Pósts og síma yrði aukið. Það get ég auðvitað ekki því það er gert ráð fyrir því samkvæmt frv. að ríkissjóður eigi allt hlutaféð. Ríkissjóður yrði þá að leggja fram fé til slíkra hluta og það verður ekki gert án atbeina Alþingis.