Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:40:23 (3348)

1996-02-27 19:40:23# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:40]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er best að svara þessu í þriðja skiptið eða svo. Þessu er margsvarað bæði í beinu svari til hv. þm. og eins með öðrum hætti í umræðunum. Að þessu vék hv. þm. Ögmundur Jónasson í ræðu sinni. 8. gr. fjallar einmitt um það að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eiga ekki lengur við eftir að Póst- og símamálastofnun hefur verið breytt í hlutafélag. Þetta hefur áður komið fram og er alveg ljóst. En á hinn bóginn taka þeir með sér þau réttindi sem þeir hafa áunnið sér samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og öðlast við skiptin þegar stofnun er breytt í hlutafélag. Þetta hélt ég að væri öllum mönnum ljóst sem hafa lesið frv. Ég tala ekki um ef þeir hafa haldið hverja ræðuna á fætur annarri um frv. og séð ástæðu til að spyrja ótal spurninga. Annars vil ég segja, herra forseti, að málatilbúnaður hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er eftir efni máls. Þingmaðurinn er mikill andstæðingur þess að Póst- og símamálastofnun sé breytt í hlutafélag eða fyrirtæki á markaðsgrundvelli og vill halda stofnuninni óbreyttri til framtíðar. Með því vill hún leggja stein í götu þess að fyrirtækið geti þróast og tekist á við fleiri verkefni í framtíðinni sem stuðla að öryggi starfsmanna að fara þá leið að breyta stofnuninni í hlutafélag. (JóhS: Þetta er útúrsnúningur hjá ráðherranum.) Þetta er ekki útúrsnúningur.