1996-02-28 13:37:19# 120. lþ. 97.1 fundur 292. mál: #A ákvæði hegningarlaga er varða óviðeigandi ummæli um erlenda þjóðhöfðingja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:37]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hegningarlagaákvæði sem spurt er um er 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga en ákvæðið er svohljóðandi:

,,Hver sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fengelsi allt að sex árum ef sakir eru miklar.``

Í 97. gr. almennra hegningarlaga kemur síðan fram að mál út af brotum sem nefnd eru í þessu ákvæði skuli því aðeins höfða að dómsmrh. hafi lagt svo fyrir og sæta þau öll opinberri meðferð. Ákvæði sem mæla fyrir um refsingu fyrir að smána erlendan þjóðhöfðingja hafa verið í íslenskum hegningarlögum allt frá því að almenn hegningarlög frá árinu 1869 tóku gildi. Núgildandi ákvæði í 1. mgr. 95. gr. var upprunalega í hegningarlögunum nr. 19/1940 en hefur tvisvar sætt breytingum. Fyrri breytingin var gerð með lögum nr. 47/1941 þar sem hámarksrefsing fyrir brot á ákvæðinu var hækkuð úr eins árs fangelsi upp í sex ár auk þess sem fellt var út skilyrði um að stjórn viðkomandi erlends ríkis þyrfti að krefjast opinberrar málshöfðunar.

Síðan breytingin var gerð með lögum nr. 101/1976 en þá var fána Sameinuðu þjóðanna og fána Evrópuráðsins veitt hliðstæð refsivernd og erlendir þjóðfánar njóta. Þess má geta að nánast samhljóða ákvæði og 1. mgr. 95. gr. er að finna í dönskum og norskum hegningarlögum, þótt hámarksfangelsisrefsing fyrir að smána erlenda þjóðhöfðingja sé þar nokkru lægri eða tvö ár í Danmörku og eitt ár í Noregi. Mjög fágætt er að refsimál hafi verið höfðað vegna brota á 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga eða samsvarandi ákvæði í eldri hegningarlögum. Í því sambandi er aðeins vitað um tvo gamla hæstaréttardóma, annars vegar frá 31. okt. 1934 og hins vegar frá 27. febr. 1935 og svo einn óáfrýjaðan héraðsdóm kveðinn upp í sakadómi Reykjavíkur 14. apríl 1959.

Eins og sjá má af þessu eru mjög fá refsimál sem höfðuð hafa verið á grundvelli þessarar lagagreinar. Það hefur því verið mjög varlega farið í að beita þessu ákvæði.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að tilefni sé til þess að fella þetta ákvæði niður. Ég er á hinn bóginn á þeirri skoðun að refsiramminn sé býsna hár og hef ekki sjálfur séð hvert tilefni varð til þess að hækka refsirammann í sex ár 1941 og ég teldi að það kæmi mjög vel til álita að færa refsirammann í átt við það sem gerist með öðrum norrænum þjóðum.