1996-02-28 13:40:45# 120. lþ. 97.1 fundur 292. mál: #A ákvæði hegningarlaga er varða óviðeigandi ummæli um erlenda þjóðhöfðingja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin að öðru leyti en því að hann virðist ekki hafa hlustað á ræðu mína og finnst mér það heldur leitt til þess að vita vegna þess að við höfum mjög knappan tíma til að gera grein fyrir máli okkar. Ég spurði ekki um 1. mgr. Ég spurði fyrst og fremst um 2. mgr. og ráðherrann fjallaði eingöngu um 1. mgr. í svarræðu sinni.

2. mgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sömu refsingu skal hver sá sæta sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis sem staddir eru hér á landi.``

Hér er fyrst og fremst verið að tala um þann þátt sem lýtur að 2. mgr. og því ákvæði fyrri málsgreinarinnar sem snertir eingöngu erlenda þjóðhöfðingja. Ég fullyrði að hæstv. ráðherra hefur með afstöðu sinni áðan verið að lýsa því yfir að hið almenna ákvæði varðandi ríkin sem slík og fána ríkjanna eigi að vera inni í lögum. Spurningin sem ég ber fram er þessi: Er ástæða til að hafa sérstaka lagavernd fyrir erlenda þjóðhöfðingja sem reynast vera fantar, reynast brjóta almenn mannréttindaákvæði af margvíslegu tagi og eru m.a. með réttu í forustugrein Morgunblaðsins í dag kallaðir samviskulausir harðstjórar? Ég tel alveg ljóst að þetta lagaákvæði eigi að fara og því eigi að breyta og ég veit að því hefur verið breytt í grannlöndum okkar. Þess vegna endurtek ég spurninguna sem ég bar fram við hæstv. dómsmrh. hvort hann telur ekki tilefni til þess að taka þetta ákvæði laganna út sem ég vék sérstaklega að í ræðu minni núna.