Skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:00:23 (3365)

1996-02-28 14:00:23# 120. lþ. 97.3 fundur 303. mál: #A skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:00]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er sá misskilningur í hinni skriflegu fyrirspurn sem lögð var fram í þinginu að nefndin hefur þegar verið skipuð. Hún var skipuð 7. nóvember á síðasta ári. Í henni eiga sæti Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem er formaður nefndarinnar, Pétur Gunnarsson blaðamaður, tilnefndur af Blaðamannafélagi Íslands, Böðvar Bragason lögreglustjóri, tilnefndur af Almannavarnaráði, séra Sigfinnur Þorleifsson tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Sigrún Jóhannesdóttir, ritari tölvunefndar, tilnefnd af tölvunefnd.

Nefndin hefur þegar hafið störf. Hún hefur þegar sent bréf til fjölmiðla með fyrirspurnum um það viðfangsefni sem hér er um fjallað með óskum um viðhorf þeirra. Hún mun hafa á prjónunum að efna á síðari stigum til umræðufundar með öllum aðilum sem eiga hlut að máli til að fjalla um tillögur og viðfangsefnið sem nefndinni er ætlað að fjalla um í víðara samhengi.

Á þessu stigi er ekki meira að segja af störfum nefndarinnar. En ég vænti þess að hún muni vinna að verkinu með eðlilegum framgangshraða.