Skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:02:04 (3366)

1996-02-28 14:02:04# 120. lþ. 97.3 fundur 303. mál: #A skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. dómsmrh. og fagna því að þetta nefndarstarf skuli þegar hafið og vera í fullum gangi, eftir því sem mér skildist á svari hæstv. ráðherra. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni bind ég talsverðar vonir við störf nefndarinnar og vænti þess að þeir aðilar aðrir sem ég nefndi hér til sögu og hugsanlega fleiri sem að málinu koma beint eða óbeint verði á síðari stigum máls kallaðir til skrafs og ráðagerða eins og raunar hæstv. ráðherra gat um.

Ég vil hins vegar að lyktum spyrja um það hvort í erindisbréfi nefndarinnar hafi að nokkru verið getið um það hvort hún ætti að skila af sér áfangaskýrslu eða einhverjum niðurstöðum fyrir tiltekinn tíma. Með öðrum orðum hvort einhver tímamörk væru á hennar starfi.