Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:13:49 (3371)

1996-02-28 14:13:49# 120. lþ. 97.4 fundur 318. mál: #A fjárfesting erlendra aðila á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:13]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ljóst af þessu að fjárfestingar útlendinga hérlendis eru nær engar. Ég minni á að fjárfestingar alls árið 1995 á Íslandi voru 70 milljarðar. Við erum að tala um 400 millj. Þetta er ekkert sem skiptir máli og það á að vera okkur umhugsunarefni að ekki hefur tekist að laða erlenda fjárfestingu hingað eins og nauðsynlegt er. Í ljósi sífellt aukinna alþjóðaviðskipta og þess að fjárfestingar milli landa verða sífellt algengari í efnahagsstefnu einstakra ríkja, eigum við að nota þetta tilefni sem fyrirspurnin gefur til að kanna betur hvernig þróunin hefur verið í nágrannalöndunum á síðustu árum og hvernig við getum breytt okkar löggjöf til að fá meiri erlendar fjárfestingar. Uppistaðan í erlendum fjárfestingum okkar hér eru í einni atvinnugrein sem er áliðnaður eða stóriðja. Það er kannski ekki mjög vænleg stefna til framtíðar að vera með öll okkar egg í þessari einu körfu. Þetta þarf að vera miklu fjölþættara og þetta er liður í þeirri breytingu sem er að verða á efnahagsumhverfi alls staðar í kringum okkur. Og við eigum að taka þátt í því með opnum huga.