Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:15:16 (3372)

1996-02-28 14:15:16# 120. lþ. 97.4 fundur 318. mál: #A fjárfesting erlendra aðila á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:15]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir afar greinargóð svör og þær umræður sem hafa farið fram í kjölfarið af þeim fyrirspurnum og þeim svörum sem hún gaf tilefni til. Ég er sammála því sem hér hefur verið sagt að þær tölur sem hæstv. viðskrh. flutti okkur eru mjög alvarlegar og mikið áhyggjuefni hversu illa okkur gengur að laða erlent áhættufé inn í íslenskt atvinnulíf. Eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. e. er meginskýringin á þessu ábyggilega sú að arðsemi í íslensku atvinnulífi er svo lítil að erlendir fjárfestar kæra sig ekki um að leggja fé í atvinnulífið. Sama má segja um íslenska fjárfesta sem eru líka mjög hikandi við það að fjárfesta í íslensku atvinnulífi, sennilega af sömu ástæðum. Arðsemiskostirnir eru aðrir betri sem menn leita þá frekar í.

Ég vek athygli á því að sú fjárfesting sem hér kom fram að hefur átt sér stað á undanförnum þremur árum, að undanskildu árinu 1993, nemur á bilinu 350--470 millj. kr. Það svarar tæplega eða kannski hóflega veltu eins frystitogara. Það er nú allt og sumt sem við erum að tala um sem er heildarfjárfesting útlendra aðila ef við undanskiljum árið 1993 þegar um var að ræða sérstaka hlutafjáraukningu erlendra eignaraðila í Járnblendiverksmiðjunni. Nákvæmlega það sama kom fram í svari þáv. hæstv. viðskrh. árið 1992 varðandi stærstu erlendu fjárfestingarnar sem eru að eiga sér stað er hlutafjáraukning í fyrirtækjum sem þegar hafa verið stofnuð. Það segir auðvitað mikla sögu um þetta eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh. að sú fjárfesting sem er núna að eiga sér stað í stækkun álversins er u.þ.b. tíföldun á þeirri erlendu fjárfestingu sem við höfum séð á undanförnum árum.