Fjárfesting Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:20:42 (3374)

1996-02-28 14:20:42# 120. lþ. 97.5 fundur 319. mál: #A fjárfesting Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það eru ekki mörg ár síðan að það þótti nánast goðgá að Íslendingar hösluðu sér völl í atvinnulífi annarra þjóða. Nú er heldur betur orðin breyting á. Við höfum séð það upp á síðkastið að íslensk atvinnufyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi, hafa verið að nema ný lönd víða um heim og taka þátt í sjávarútvegi út um allan heim. Þetta segir okkur fyrst og síðast að íslenskur sjávarútvegur er á heimsmælikvarða og talinn eftirsóttur til að flytja þekkingu og vera samstarfsaðili í þessari atvinnugrein nánast sama hvar í heiminum sem er. Í þessu sambandi er af nógu að taka. Hvað mesta athygli hefur að sjálfsögðu vakið sú staðreynd að Íslendingar, raunar Eyfirðingar, hafa fjárfest mjög eftirminnilega í tveimur togaraútgerðum í Þýskalandi eins og allir vita. En það er fleira sem ástæða er til að nefna í þessu sambandi. Minna má á þátttöku fyrirtækja eins og Granda í Chile, íslensk fyrirtæki tóku þátt í samstarfsverkefnum í sjávarútvegi suður í Afríku og Kamtsjatka og víðar. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að minna á það frumkvöðulsstarf sem stóru sölufyrirtækin okkar í sjávarútvegi, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandið, síðar Íslenskar sjávarafurðir, hafa gegnt með fjárfestingum sínum austan hafs og vestan í fyrirtækjum þar. Fleiri hafa raunar siglt í kjölfarið síðar. Íslendingar hafa líka fjárfest á öðrum sviðum, svo sem í byggingariðnaði í Suðaustur-Asíu, svo dæmi séu tekin. Þá er og að geta þess að Eimskip hefur í krafti styrks síns haslað sér völl á erlendri grundu með erlendri fjárfestingu víða. Enn má nefna fjárfestingu lyfjafyrirtækis austur í hinum baltnesku ríkjum. Enginn vafi er á því að þessi þróun er mjög æskileg. Hún opnar okkur leið inn á nýja markaði. Hún gefur fyrirtækjunum nýja viðspyrnu og hún skapar ný störf fyrir Íslendinga með nýstárlegum hætti. Það sem okkur er auðvitað fjötur um fót í þessu sambandi er tvennt. Smæð fyrirtækjanna og það hversu þau eru almennt fjárhagslega veikburða. Þess vegna kann að virðast fjarlægt að hyggja nú að þessum efnum og mér er að sjálfsögðu ljóst að fjárfesting af þessu tagi getur aldrei orðið annað en skynsamleg en lítil viðbót við okkar almenna innlenda efnahagslíf. Þá letur það að sjálfsögðu íslenska stjórnendur sem hafa fangið svo fullt af daglegum vandamálum að vita af því að tíminn sem þeir verja til undirbúnings og þátttöku í atvinnulífi erlendis tekur athyglina frá því sem þeir eru að gera hér heima og það eru því miður ekki margir framkvæmdastjórar eða athafnamennirnir sem geta leyft sér slíkt í dag. Ég hef hins vegar leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga á þskj. 561:

1. Hversu mikil var fjárfesting Íslendinga erlendis á árunum 1993--1995? Í hverju fólst sú fjárfesting?

2. Hversu mikill hluti fjárfestingarinnar kom frá

a. atvinnufyrirtækjum,

b. fjármálastofnunum, þar með töldum lífeyrissjóðum,

c. einstaklingum?

3. Má vænta aukinnar fjárfestingar Íslendinga erlendis? Ef svo er, á hvaða sviðum helst?