Fjárfesting Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:23:45 (3375)

1996-02-28 14:23:45# 120. lþ. 97.5 fundur 319. mál: #A fjárfesting Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:23]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr á þskj. 561 um fjárfestingu Íslendinga erlendis. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. hversu mikil var fjárfesting Íslendinga erlendis á árunum 1993--1995 og í hverju sú fjárfesting fólst. Fjárfesting Íslendinga erlendis á árunum 1993 til 1995 og flokkun hennar eftir eðli fjárfestinga var sem hér segir: Heildarfjárfesting erlendis árið 1993 nam 2.845 millj., árið 1994 8.589 millj. og árið 1995 3.256 millj.

Fjárfestingin skiptist sem hér segir: Í fyrsta lagi var bein fjárfesting erlendis árið 1993 um 690 millj. kr. Bein fjárfesting árið 1994 791 millj. og 1995 484 millj. Bein fjárfesting var annars vegar í atvinnurekstri og nam hún 548 millj. kr. árið 1993, 730 millj. árið 1994 og 350 millj. árið 1995. Ég ætla að lesa þetta hægt þannig að hv. þm. nái þessu talnaflóði öllu niður. Bein fjárfesting vegna fasteignakaupa var 142 millj. árið 1993, 61 millj. árið 1994 og 98 millj. árið 1995.

Í öðru lagi eru verðbréfakaup, þ.e. óbein fjárfesting sem var á árinu 1993 2.155 millj., árið 1994 7.798 millj. og árið 1995 2.808 millj. Kaup á hlutabréfum nam 186 millj. kr. árið 1993, 420 millj. 1994 og 154 millj. árið 1995. Kaup á hlutdeildarskírteinum nam 132 millj. árið 1993, 1.206 millj. árið 1994 og 2.288 árið 1995. Fjárfesting í skuldabréfum nam 1.837 millj. árið 1993, 6.172 millj. árið 1994 og 366 millj. árið 1995.

Hv. þm. spyr hversu mikill hluti fjárfestingarinnar kom frá atvinnufyrirtækjum, hversu mikill hluti frá fjármálastofnunum, þar með töldum lífeyrissjóðum og hversu mikill hluti frá einstaklingum. Því miður er ekki unnt að svara þessari spurningu hv. þm. Seðlabankinn sem annast tölfræðilega vinnslu gagna um gjaldeyrisyfirfærslur hefur ekki upplýsingar um hverjir fjárfestarnir eru í hverju tilviki fyrir sig. Því miður er ekki svar við þessari spurningu hv. þm.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Má vænta aukinnar fjárfestingar Íslendinga erlendis? Ef svo er á hvaða sviðum helst? Erfitt er að meta líkur á aukinni fjárfestingu íslenskra fyrirtækja erlendis. Við mat á því ber að greina á milli beinnar fjárfestingar, þ.e. aðallega varðandi fjárfestingu í atvinnurekstri erlendis og óbeinna fjárfestinga. Slík fjárfesting virðist heldur vera að aukast og raunar bind ég vonir við að svo verði. Frumniðurstaða úttektar, sem unnin hefur verið um þjóðhagsleg áhrif þátttöku íslenskra fyrirtækja í atvinnustarfsemi erlendis, bendir til að það leiði til mikilla margfeldisáhrifa hér á landi vegna kaupa á vöru og þjónustu héðan vegna slíkrar þátttöku. Veruleg tækifæri ættu að vera til að fjárfesta erlendis, ekki síst í sjávarútvegi, en einnig á öðrum sviðum eins og dæmin sanna.

Hvað varðar verðbréfakaup eða beina ávöxtun fjármagns erlendis virðast slík kaup hafa dregist saman á árinu 1995 eftir allmiklar aukningu á árinu 1994. Framtíðarþróun þessara viðskipta ræðst af þróun vaxta og gengis og hvert framboð verður hér á landi á traustum hlutabréfum. Í því sambandi bind ég vonir við að íslenskir stofnanafjárfestar muni í auknum mæli geta komið að fjármögnun nýrra fjárfestinga bæði sem hluthafar og verkefnabundnir lánveitendur.