Fjárfesting Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:32:59 (3379)

1996-02-28 14:32:59# 120. lþ. 97.5 fundur 319. mál: #A fjárfesting Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:32]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja máls á báðum þessum fyrirspurnum sem hér hefur verið reynt að svara eftir því sem upplýsingar leyfa. Það er rétt sem hefur komið fram að þetta er mjög þröngt form til að ræða eitt af stærstu hagsmunamálum okkar um hvernig okkur tekst að fá bæði erlenda fjárfesta inn í landið og hvernig okkur tekst að fjárfesta í atvinnulífi erlendis.

Ég vek athygli á því að verði frv., sem er til umfjöllunar í þinginu, að lögum er gert ráð fyrir að viðskrh. geri þinginu grein fyrir því árlega í skýrslu hver þróunin hefur orðið í þessum efnum. Þá gefst vonandi í framtíðinni betra tækifæri til að fjalla um þessa hluti en undir því þrönga formi sem hér er.

Það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að fjárfestingin er mun meiri út úr landinu en inn og það er auðvitað áhyggjuefni. En að mörgu leyti er það dálítið merkilegt þegar við horfum á það háa vaxtastig sem við erum með á Íslandi. Vandamálið er hins vegar að við höfum búið við vísitölubindingar í mjög langan tíma. Þegar erlendir aðilar fara að velta fyrir sér þeirri merkilegu lánskjaravísitölu sem var hér einu sinni, sem heitir nú vísitala neysluvöruverðs, og spyrja hversu traust og örugg hún sé í raun til að fjárfesta eftir og spyrja hvort þessari vísitölu hafi einhvern tímann verið breytt þá verða menn að svara sem svo: Já, henni hefur verið breytt í nokkrum tilvikum. Þá er öryggið ekki meira en það hjá þessum fjárfestum að þeir treysta sér ekki til þess að fjárfesta í verðbréfum okkar.

Ég hef skipað nefnd til að leita allra leiða til að markaðssetja íslensk verðbréf erlendis. Það starf er núna í gangi. Formaður þeirrar nefndar kemur frá Seðlabankanum. Ég vonast til þess að í marsmánuði skili nefndin af sér tillögum. Ég bind nokkrar vonir við að þar gefist ákveðin sóknarfæri því þetta er okkur gríðarlega mikilvægt.