Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:44:14 (3383)

1996-02-28 14:44:14# 120. lþ. 98.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál. 8/1996, Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:44]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um till. til þál. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun. Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund og umsagnir bárust líka á fund nefndarinnar. Við umræður um þáltill. komu fram nokkrar ábendingar um greinargerðina sem henni fylgdi. Greinargerðin er yfirlit yfir flest atriði í umferðaröryggisstarfinu og þarf stöðugt að endurskoða hana, helst árlega. Á þessu ári hyggst dómsmrn. fá Umferðarráð til að endurskoða skýrsluna um umferðaröryggisáætlun til ársins 2000 og koma með nýjar áherslur í umferðaröryggismálum. Hagsmunaaðilum verður þá gefinn kostur á að koma með tillögur og athugasemdir til Umferðarráðs um þau atriði er þeir telja brýnt að séu tekin til athugunar í skýrslunni.

Til allshn. bárust fjölmargar athugasemdir við greinargerðina m.a. frá Ökukennarafélagi Íslands um ökunám og leiðbeinendaakstur og verða þessar athugasemdir og tillögur væntanlega teknar til athugunar við endurskoðun á áhersluatriðum fyrir næstu þáltill. Á vegum dómsmrn. er verið að endurskoða reglugerð um ökupróf og ökukennslu í samræmi við Evrópusambandsreglur um ný evrópsk ökuskírteini. Ráðuneytið hefur m.a. verið að vinna tillögur um reglur fyrir æfingaakstur í samvinnu við Ökukennarafélagið og Umferðarráð og væntanlega verða þær reglur til að stuðla að bættu ökunámi en vonast er til að reglurnar taki gildi næsta haust.

Í athugasemd með þessari tillögu eru talin upp 22 atriði sem nefndin sem undirbjó tillöguna leggur til að hafi forgang í umferðaröryggisstarfinu. Kom fram í umræðum í nefndinni að ýmis þessara atriða eru þegar komin til framkvæmda eða langt komin.

Allshn. leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að við 2. málsl. bætist: í samvinnu við ökumenn og samtök þeirra.

Allir fulltrúar allshn. undirrita þetta nál. Jóhanna Sigurðardóttir, sem sat fundi sem áheyrnarfulltrúi, er samþykk þessu áliti.