Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:49:34 (3385)

1996-02-28 14:49:34# 120. lþ. 98.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál. 8/1996, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:49]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að þessi þáltill. er afmörkuð, þ.e. ákveðinn texti sem þar er um að ræða en síðan er í greinargerðinni vitnað til þessarar skýrslu. Þar eru talin upp 22 atriði sem áætlað er að koma til framkvæmda. Það er hins vegar rétt að það komi fram að það voru ýmis atriði rædd í nefndinni í tengslum við greinargerðina við meðferð þessa máls. Þar á meðal var spurt hvort hægt væri að setja belti í langferðabifreiðar. Það var upplýst á fundi nefndarinnar, að því er ég man best, að Evrópusambandið væri búið að gera tillögur um slíkar reglur sem mundu gilda um allar nýjar langferðabifreiðar. Við eigum því von á því að það muni komast einhver skriður á þau mál er snerta aukið öryggi varðandi langferðabifreiðar. Væntanlega mundi þá það sama gilda um akstur skólabifreiða en það var ekki rætt sérstaklega. Ýmis mál sem tengjast umferðaröryggi voru rædd í nefndinni. Þar á meðal um notkun hjólreiðahjálma. Þar kom m.a. fram að nú þegar nota um 60--70% barna og unglinga hjólreiðahjálma og er það mjög athyglisvert. Þannig að það voru ýmis atriði sem voru rædd í tengslum við þessi mál. Einnig var spurst fyrir um þetta atriði sem hv. þm. vakti hér athygli á.