Flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:53:44 (3387)

1996-02-28 14:53:44# 120. lþ. 98.5 fundur 283. mál: #A flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES# frv. 14/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:53]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá samgn. á þskj. 612 sem fjallar um frv. til laga um flutninga á skipgengum vatnaleiðum vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Hermannsson frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra frá samgönguráðuneyti.

Með frumvarpinu er tryggður gagnkvæmur frjáls aðgangur skipa, sem skráð eru í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, að skipgengum vatnaleiðum innan svæðisins og geta í því falist umtalsverðir hagsmunir fyrir íslenska kaupskipaútgerð.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. skrifa allir nefndarmenn nema Árni Johnsen sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í nál. segir að í þessu litla frv. geti falist miklir hagsmunir fyrir íslenska kaupskipaútgerð. Það er öruglega ekki ofmælt vegna þess að þetta frv. felur fyrst og fremst í sér gagnkvæman rétt. En þannig háttar til á Íslandi að það eru sennilega ekki miklir möguleikar á því að erlend skipafélög sækist eftir því að sigla upp hinar íslensku ársprænur. Hins vegar geta falist verulegir hagsmunir í því fyrir íslensk skipafélög að geta farið um fljót Evrópu. T.d. hefur verið upplýst í samgn. að möguleikar til að sigla beint um evrópsku stórfljótin og skipaskurðina séu þarna opnaðir með vissum hætti. Eins og málum háttar í dag þarf að umskipa vöru í ýmsum evrópskum höfnum og flytja síðan ýmist með bílum eða öðrum skipum upp evrópsku fljótin og skipaskurðina.

Talið er að þessi flutningaaðferð, að flytja vörur með skipum upp skipaskurðina og fljótin, sé mjög vistvæn sem kallað er. Ég veit að ýmsir hv. þm. munu þekkja það hugtak. Því er talið að þessi flutningaleið verði mun meira notuð á næstu árum en t.d. hefðbundinn flutningur á landi. Það er talið að það verði meiri ásókn í að fara þarna um fljótin og skipaskurðina sem bera hins vegar takmarkaða umferð. Þá er kannski komið að aðalatriðinu. Talið er að þetta þýði í framtíðinni að aðgangurinn að þessum skipgengu vatnaleiðum verði takmarkaður og e.t.v. verði tekin ákvörðun um að setja þar á einhvers konar kvóta, hvort sem það verða sóknarkvótar eða einhverjir aðrir kvótar á heimildir skipafélaga til að sigla um skipgengar vatnaleiðir. Þess vegna geta í því falist nokkrir hagsmunir fyrir Íslendinga að hafa helgað sér nokkurn rétt með því að stunda siglingar á þessum vatnaleiðum. Í þessu felast sem sagt nokkrir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga. En eins og ég nefndi áðan felast fyrst og fremst í þessu hagmunir okkar í sókn út á við. Hins vegar felast engar kvaðir í þessu. E.t.v. má því segja sem svo að nú sé loksins fundið það litla sannleikskorn sem fólst í þeim stóru orðum að með EES-samningnum hafi allt fengist fyrir ekkert.