Flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:57:40 (3388)

1996-02-28 14:57:40# 120. lþ. 98.5 fundur 283. mál: #A flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES# frv. 14/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Loksins, loksins. Það eru orðin sem mér koma í hug eftir að hafa hlustað á þessa glæsilegu framsöguræðu fyrir einhverju vitlausasta máli sem hefur rekið á fjörur þingsins. Ég verð að segja að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni mæltist alveg óvanalega vel. Það var eins og hér væri á ferðinni alvörumál. Ég hlýt auðvitað að taka undir að það er gaman að finna loksins eitthvað í þessum samningi um EES sem fellur undir það sem hér var einu sinni gert mikið grín að, að menn fengju ,,allt fyrir ekkert``. Það er líka gaman að það skuli vera hv. þm. sem finnur loksins þetta atriði þar sem Íslendingar eru að fá allt fyrir ekkert. Það var nefnileg einmitt þetta mál sem varð hér hálfgerð hornreka á síðasta kjörtímabili vegna þess að þáv. hæstv. samgrh., sem er sami einstaklingurinn og gegnir því starfi í dag, hafði allt á hornum sér gagnvart þessu máli. Honum þótti það óþarfi á þeim tíma. En nú eru bersýnilega nýir menn komnir til valda í íslenskum samgöngumálum og formaður samgn. hins háa Alþingis heitir nú Einar K. Guðfinnsson. Væntanlega er það hann sem hefur svipt hulunni frá augum hins skilningssljóa hæstv. samgrn. í þessu máli. Ég verð enn og aftur að lýsa ánægju minni með framsöguræðuna og óska hv. þm. til hamingju. Með þessari ræðu hefur hann markað söguleg spor. Það er hann sem stýrir þessu merka máli í gegnum þingið.

Þess hlýtur að vera skammt að bíða eftir þessa ræðu að við getum farið að kalla hann hæstv. samgrh. Það sem ég vil þó fetta fingur út í er að hann skuli voga sér að tala um íslenskar ársprænur þegar hann er réttilega að sýna fram á að sennilega muni engir útlendingar af tæknilegum orsökum sækjast eftir því að sigla upp hin tígulegu og mikilúðlegu íslensku fljót. Ég minni hann þó á að það var eigi að síður svo að menn sóttust eftir því hér áður fyrr. Og ég minni hann á að erlendir konungar vildu forðum halda langskipum hér í eyjum í norðurhöfum til þess m.a. að geta siglt upp íslensk fljót og látið skellur sínar skakast að íslenskum smábændum. Nú er það loks löglegt.

[15:00]

Herra forseti. Ef ég hefði meiri tíma, hefði ég farið með af því tilefni þjóðsöng Grímseyinga sem lýtur einmitt að því. En aftur, hv. þm., til hamingju með þessa glæsilegu ræðu og þennan mikla áfanga í samgöngusögu Íslendinga.