Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:37:53 (3394)

1996-02-28 15:37:53# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur beint til mín nokkrum viðamiklum spurningum um stór og mikilvæg mál þannig að það er erfitt að svara þeim svo tæmandi verði á svo skömmum tíma sem hér er gefinn til umræðu.

Fyrst er að það segja að við höfum lengi búið við aðra verðlagningarhætti eða aðferðir í landbúnaði en á hinum frjálsa og almenna markaði. Um það gilda ákveðnir samningar sem gerðir hafa verið við bændastéttina og í framhaldi af því lagasetning sem Alþingi hefur sett.

Fyrst spyr hv. þm. um álit samkeppnisráðs um verðlagningu mjólkurvara. Þetta álit sem er númerað nr. 3/1996 barst ráðuneytinu með bréfi fyrir 10 dögum eða 19. febrúar. Það er nú í skoðun í ráðuneytinu. Þar er hreyft mörgum athugasemdum en sannleikurinn er sá að samkeppnislögin eru þess eðlis að þau eru eins konar yfirlitslög, stefnumótandi, en búvörulögin taka til sérstakra ákvæði sem varða búvöruverðlagninguna. Víða í samkeppnislögunum má finna ákvæði þar sem það er áréttað að búvörulögin séu undanþegin ákvæðum samkeppnislaganna sem slíkra. Það er einnig undirstrikað í greinargerð með frv. um samkeppnislögin á sínum tíma og í athugasemdum um einstakar greinar. Að lokum kemur það fram í ræðu hæstv. þáv. viðskrh. þegar hann mælir fyrir samkeppnislögunum að ákvæði um verðlagningu búvara séu bundin öðrum lögum en samkeppnislögunum. Þessi lagaágreiningur ef má kalla það svo er til skoðunar í landbrn.

Hér tel ég að sé um flókin mál að ræða sem sé nauðsynlegt fyrir ráðuneytið að skoða ítarlega og fara vel yfir áður en ráðherra gefur upp endanlegt álit sitt á niðurstöðunni. Ég vil þess vegna segja við hv. þm. þegar hann spyr tvisvar í spurningum sínum hvort ráðherra sé sammála áliti samkeppnisráðs og hins vegar hvort hann hyggist beita sér fyrir breytingu á búvörulögunum, að það hlýtur að verða að gerast í samkomulagi við bændastéttina. Þessi lagasetning byggir á ákveðnum samningum og við munum að sjálfsögðu fylgja þeim eftir. Landbrn. ber að fylgja búvörulögunum eftir eins og þau eru svo lengi sem þeim hefur ekki verið breytt. Ég vil eiga fullt samkomulag um þetta við viðkomandi aðila. Ég vil minna á að í þeim samningum sem ég hef þegar staðið að um endurskoðun á búvörusamningum hvað varðar sauðfjárframleiðsluna, þá hefur ákvæðum um verðlagningu verið breytt þannig að þegar er farið að stíga ákveðin skref í þá átt að aðlaga þessa verðlagningu að þeim kröfum sem almennt gerast á markaði.

Um spurningu nr. 2 sem varðar ákvörðun samkeppnisráðs vil ég aðeins segja að þar er enn fremur um að ræða lögfræðileg álitamál sem beint er til fyrirtækisins sem slíks en ekki til ráðuneytisins. Ráðuneytinu hefur ekki einu sinni borist það álit formlega því að það er ekki ætlað ráðuneytinu. Ég spyr í fyrsta lagi: Er ekki eðlilegt að fyrirtækið sem slíkt fái möguleika á því eins og lög samkeppnisráðs kveða á um að skoða sín mál? Reyndar eru í lögunum áfrýjunarákvæði þannig að ég tel að Osta- og smjörsalan verði að fá að skoða sín mál áður en kveðnir er upp dómar af mér eða öðrum hér í þessum ræðustóli.

Það er spurt um vald ráðherrans. Hvort ráðherra vilji beita sér fyrir að þessi ákvörðun sé virt. Það er í raun ekki í hans verkahring.

[15:45]

Osta- og smjörsalan er umboðsverslun og það hlýtur að verða að taka tillit til þess í málinu. Því miður virðast þær tölur sem byggt er á í álitinu rangar samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Osta- og smjörsölunni. Kannski er það ekki mitt mál, en það hlýtur að rýra bæði kæruna og álit stofnunarinnar ef rangt er farið með tölur. Viðskiptatölur frá seinasta ári eru, samkvæmt upplýsingum Osta- og smjörsölunnar, umtalsvert lægri en kveður á um í kærunni.

Síðan er spurt hér um stórmál, úreldingu Mjólkursamlagsins í Borgarnesi. Ég vil taka það fram að auðvitað var tilgangurinn fyrst og fremst sá að leita hagræðingar í mjólkuriðnaði. Hv. þm. spyr hvort ráðherra hafi ekki viljað fylgja eftir tillögu nefndarinnar. Ég tel að í öllum meginatriðum hafi tillögum hennar verið fylgt. T.d. er munurinn á endanlegri úreldingarupphæð, sem varð 227 millj. kr., ekki meiri en 4 millj. Nefndin gerði tillögu um að úreldingarféð yrði 223 millj. kr. svo þar ber ekki mikið í milli. Veittur frestur var bundinn í samningi sem báðir málsaðilar voru búnir að skrifa undir. Ráðherra gat því ekki breytt þeirri dagsetningu nema með því að rjúfa samninginn eða krefjast þess að hann væri tekinn til endurskoðunar. Það taldi ég ekki rétt að gera. Álit Ríkiskaupa sem svar við beiðni Sólar hf. staðfestir líka að að hér hafi verið eðlilega að máli staðið.

Varðandi síðasta lið spurningarinnar áskil ég mér rétt til að svara honum í seinni tíma mínum við þessa umræðu þar sem tími minn nú er þrotinn.