Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:44:27 (3395)

1996-02-28 15:44:27# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á tveimur mínútum verða svo stóru máli vart gerð fullnægjandi skil. Ég vil þó taka undir allt það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði. Varðandi síðara málið sem hann spurði um vil ég vekja athygli á að þarna er verið að leggja fyrirtæki til úr ríkissjóði á þriðja hundrað milljónir króna og eignirnar sem áttu að standa á bak við það framlag, til þess að hefja samkeppni við önnur fyrirtæki sem ekki njóta slíkra vildarkjara. Þetta geta ekki talist eðlilegir viðskiptahættir og ég gagnrýni það mjög harðlega. Ég vildi spyrja forustumenn Sjálfstfl. sömu spurninga og forstjóri Sólar spurði þá í viðtali við Morgunblaðið. Er það virkilega svo að þessi flokkur sem orðar sig við frjálst framtak ætli að líða þetta? Þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað en ég vænti þess að henni verði svarað í umræðum á eftir.

En það var fleira, herra forseti, sem hefur verið borið á borð hæstv. landbrh. og raunar ráðherra samkeppnismála líka vegna þess að föstudaginn 16. febrúar fengu þeir í hendur ákvörðun samkeppnisráðs um samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda. Ég verð að segja eins og er að ef það mál var alvarlegt sem hér var tekið upp varðandi Osta- og smjörsöluna, er hitt miklu alvarlegra. Þar kemur fram að samtök eggjaframleiðenda hafa með ólögmætum hætti þráfaldlega brotið samkeppnislög og beitt fyrir sig búvörulögum sem samtökin hafa túlkað að því er virðist eftir vild hverju sinni eins og við hefur átt fyrir þeirra hagsmuni. Í niðurstöðu samkeppnisráðs segir, með leyfi forseta:

,,Efni þeirra gagna sem reifuð voru hér að framan gefa ótvírætt til kynna að Félag eggjaframleiðenda hefur haft skýran og einbeittan vilja til að ræða um, stuðla að og framkvæma aðgerðir sem hvað alvarlegastar þykja jafnt í íslenskum sem í erlendum samkeppnisrétti.``

Það kemur líka fram að þessar aðgerðir hafa valdið því að egg eru 110--115% hærri í verði hér á Íslandi en í nálægum löndum. Þetta er gersamlega óviðunandi. Það er líka gersamlega óviðunandi að hæstv. landbrh. og hæstv. ráðherra samkeppnismála skuli ekki bregðast tafarlaust við og ráða bót á þessu sem ekki verður gert nema með því að fella alifuglaframleiðslu og afurðir alifuglaræktar út úr búvörulögunum þannig að samkeppnislög nái ótvírætt til slíkrar framleiðslu. Ég mun beita mér fyrir því að slíkt mál verði flutt á Alþingi þar sem ég hef orðið var við að hæstv. landbrh. er seinn til svara um þau efni og hæstv. ráðherra samkeppnismála virðist ekki hafa skoðað þau.