Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:47:47 (3396)

1996-02-28 15:47:47# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi enn málfrelsi hér sem þingmaður og mér leyfist að fjalla um það mál sem er til umræðu. Ég tel að hv. fyrirspyrjandi hafi flutt dágott innlegg til þess að koma sér inn í Alþfl. á ný, ef Alþfl. vill þá yfirtaka restina af Þjóðvaka. Hann talaði eins og besti krati enda hefur aðalmaður þeirra í þinginu, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, farið viðurkenningarorðum um hv. þm. Ágúst Einarsson. Hv. þm. spurði um álit landbrh. á niðurstöðu samkeppnisráðs og ég blanda mér í þessa umræðu vegna þess að afstaða mín til álits samkeppnisráðs varðandi Osta- og smjörsöluna er alveg á hreinu. Ég tel að samkeppnisráð hafi með umfjöllun sinni um mál Bónuss gegn Osta- og smjörsölunni skákað sér út úr alvarlegri umræðu um samkeppnismál. Það sem samkeppnisráð sagði var í stuttu máli að verð á vörum Osta- og smjörsölunnar skyldi hækkað til annarra en Bónuss/Hagkaups. Ég er ekki sammála því að þeir sem versla við aðra söluaðila en Hagkaup og Bónus eigi að þurfa að greiða meira fyrir vörurnar til þess að niðurgreiða fyrir Bónus/Hagkaup. Ég held að samkeppnisráði væri nær að líta á matvörumarkaðinn hér á landi og taka eftir því að Hagkaup/Bónus er orðið gjörsamlega markaðsráðandi á matvörumarkaðnum og komið í einokunaraðstöðu.