Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:49:56 (3397)

1996-02-28 15:49:56# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Vestf. að tíminn til að ræða þetta mikilvæga mál er stuttur. En í ljósi breyttra aðstæðna og viðhorfa sem rutt hafa sér til rúms í atvinnulífi samtímans hvort heldur er hérlendis eða erlendis þar sem lykilorðin eru jöfn rekstrarskilyrði og nýleg samkeppnislög hafa að markmiði að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þannig að hagkvæmari og betri nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélagsins, skýtur augljóslega skökku við að hæstv. landbrh. skuli beita þeim aðferðum við meðferð á sölu ríkiseigna sem raun ber vitni. Það, að hæstv. landbrh. felur Ríkiskaupum að selja eignirnar, hlýtur að þýða að eftir úreldingu þeirra fer hæstv. landbrh. með eignarhald á þeim og því eru þær eignir ríkisins. Sala eignanna fór fram samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 651 frá 1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, sem sett er með stoð í lögum um opinber innkaup. Markmið og tilgangur þeirra laga er að tryggja hagsmuni ríkisins í hvívetna. Það verður því að segjast eins og er að við þá málsmeðferð sem hér var höfð uppi af hálfu hæstv. landbrh. voru hagsmunir ríkisins, skattgreiðenda, ekki hafðir að leiðarljósi. Úreldingarstyrkur upp á 227 millj. kr. þegar markaðsvirði eignarinnar er metið á 258 millj. kr., sem þýðir að eignirnar eru afhentar til baka á 31 millj. kr., getur ekki þjónað hagsmunum skattgreiðenda. Sú tilraun sem gerð var til að selja eignirnar var aðeins til málamynda, a.m.k. ef tekið er mið af viðtali sem Morgunblaðið hafði við Þóri Pál Guðjónsson kaupfélagsstjóra ellefu dögum áður en auglýsing um sölu eignanna birtist í Morgunblaðinu. Þar lýsir hann því yfir að hlutafélag í eigu Kaupfélags Borgfirðinga, Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, Osta- og smjörsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna muni kaupa eignirnar að nýju. Það er því alveg ljóst að við sölu þessa hafa allt aðrir hagsmunir verið hafðir að leiðarljósi en hagsmunir skattgreiðenda og ríkisins þó svo að lög kveði skýrt á um þá hagsmuni skuli hafa að leiðarljósi við sölu á ríkiseignum.

Örfá orð í lokin, herra forseti. Mér virðist að sú hagræðing sem stefnt hefur verið að í mjólkuriðnaðinum, sem er vernduð starfsgrein, muni leiða til þess að fjármunir sem notaðir eru til hennar muni á endanum hafna hjá fyrirtækjum sem eru í óheftri samkeppni. Það er með öðrum orðum verið að færa fjármuni frá starfsemi fyrirækja sem eru í verndaðri atvinnugrein yfir til fyrirtækja sem eru í óheftri samkeppni.