Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 10:56:10 (3405)

1996-02-29 10:56:10# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, VS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:56]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu um norrænt samstarf frá febrúar 1995 til desember 1995 sem er á þskj. 592. Ég mun reyna að komast hjá því að endurtaka of mikið af því sem þegar hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh., samstarfsráðherra Norðurlanda, en óhætt er að segja að miklar breytingar hafi orðið á norrænu samstarfi á síðasta starfsári. Í kjölfar nýrrar stefnumótunar í norrænu samstarfi, sem samþykkt var á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars sl., var hafin vinna við breytingar á Helsinki-sáttmálanum og samþykktum Norðurlandaráðs. Þessari vinnu auk breytinga á skipulagi og starfsemi Norðurlandaráðs lauk á árinu.

Á þingi ráðsins í Reykjavík var skýrslan Nýir tímar í norrænni samvinnu lögð fram og samþykkt. Skýrslan hefur að geyma tillögur um markmið, inntak og form norrænnar samvinnu í nánustu framtíð og rekur pólitískar forsendur og ný áhrif innan Norðurlandasamstarfsins. Með skýrslunni var samþykkt að endurnýja bæri samstarfið og laga það að nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Nauðsynlegt væri að hleypa nýju lífi í samstarfshættina og laga þá að nýjum aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að Evrópusambandinu. Norræn samvinna er ekki talinn valkostur andspænis heldur hluti af víðtækri evrópskri samvinnu. Nauðsynlegt er talið að tryggja öllum aðildarríkjum og sjálfstjórnarsvæðum áframhaldandi jafnræði innan ramma norrænnar samvinnu hvernig sem tengslum þeirra við Evrópusambandið og EES er háttað.

Mikilvægur þáttur í umbótastarfinu er að samvinnan tengist meira stjórnmálaflokkunum og mun augljósar en áður. Því ber að styrkja frekar það flokkasamstarf í norrænni samvinnu sem verið hefur á undanförnum árum.

[11:00]

Norrænu samstarfi framtíðarinnar er beint að þremur meginsviðum: Samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu, Evrópusambands og EES og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra. Samvinna innan Norðurlanda byggist á og stuðlar að þróun gilda sem allar Norðurlandaþjóðirnar eiga sameiginlega og koma helst fram í skyldleika menningar og tungumála, svipaðri afstöðu til lýðræðis, góðu umhverfi og helstu félagslegum réttindum. Um er að ræða samstarf í þjóðfélagsmálum sem stuðlar að þróun sameiginlegra norrænna gilda á þeim sviðum þar sem samnorrænar lausnir gagnast Norðurlandabúum betur en þjóðbundnar lausnir eða alþjóðlegt fyrirkomulag. Norðurlönd og EES fjalla aðallega um samstarf í málum sem fyrst og fremst eru mikilvæg fyrir samstarf innan Evrópusambandsins og EES þar sem gildismat og hagsmunir Norðurlandanna fara saman. Norræn samvinna skal mynda grundvöll frumkvæðis í þeim málum sem ríkin óska eftir að hafa áhrif á í Evrópu. Norræn samvinna skal einnig stuðla að því að samræma framgang tilskipana og annarra reglna Evrópusambandsins og EES. Auk þess skal norræn samvinna stuðla að tengslum milli Norðurlanda og sjálfstjórnarsvæða sem eiga aðild að Evrópusambandinu og þeirra ríkja sem tengjast Evrópusamvinnu með EES-samningnum eða öðrum samningum.

Þróunin á grannsvæðum Norðurlanda, þ.e. á Eystrasaltssvæðinu og heimskautssvæðinu, skiptir miklu pólitísku máli fyrir Norðurlönd. Aukin samvinna við Eystrasaltsríkin og norðausturhéruð Rússlands er mikilvægt framlag til stöðugleika og lýðræðis á svæðinu. Sjálfbær þróun byggist m.a. á ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda með tilliti til hinna sérstöku aðstæðna og hagsmuna frumbyggja á heimskautssvæðinu.

Í skýrslunni er einnig kafli um tillögur að skipulagi Norðurlandaráðs en þeim var allmikið breytt í meðförum forsætisnefndar. Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt þannig að fagnefndir voru lagðar niður frá og með áramótunum 1995--1996 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir sem eru byggðar á fyrrgreindum meginsviðum. Jafnframt var ákveðið að flokkasamstarfið yrði aukið og að forustuhlutverk Norðurlandaráðs yrði eflt. Breytingar á tilhögun funda Norðurlandaráðs voru þær að ráðið heldur nú eitt þing á ári í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram. Reglubundið þing skal framvegis haldið að hausti. Formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar til viðbótar þingi Norðurlandaráðs í þeim tilgangi að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig var ákveðið að bjóða þeim aðilum sem taka þátt í starfi Evrópusambandsins, einkum norrænum fulltrúum á Evrópuþinginu og fulltrúum í Evrópunefndum norrænu þjóðþinganna eða samsvarandi stofnunum og jafnvel fulltrúum fagnefnda hinna einstöku þjóðþinga, að taka þátt í aukaþingum og þemaráðstefnum.

Á árinu var enn fremur ákveðið að samræma og koma á fót sameiginlegri upplýsinga- og útgáfustefnu fyrir allt norrænt samstarf á vegum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Þetta mun verða auðveldara í framkvæmd því að einnig var ákveðið á árinu að flytja skrifstofu forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem frá upphafi hefur verið í Stokkhólmi til Kaupmannahafnar eins og þegar hefur komið fram. Með þessu er bæði stefnt að hagræðingu í rekstri þessara tveggja stærstu stofnana Norðurlandasamstarfsins og reynt að auðvelda samráð og samstarf embættismanna þeirra.

Á starfsárinu var Helsinki-sáttmálanum, grundvallarreglum norræns samstarfs, breytt til samræmis við þær nýju áherslur í norrænu samstarfi sem hér hafa verið raktar.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fjalla lítillega um störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Hún hélt á starfsárinu 13 fundi. Fyrstu tveimur mánuðum ársins var varið til undirbúnings þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Reykjavík dagana 27. febrúar til 2. mars. Um þinghaldið og skipulag þess sá skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í samvinnu við ráðstefnudeild Ferðaskrifstofu Íslands. Þingið var haldið í Háskólabíói en skrifstofuaðstaða var einnig leigð á þriðju hæð Bændahallarinnar, á Hótel Sögu.

Segja má að umræður á þessu þingi hafi einkennst af breytingum á norrænu samstarfi og breyttum aðstæðum í þeirri samvinnu. Þátttakendur á þingi Norðurlandaráðs voru rúmlega 1.000 og fór þinghaldið fram sem skyldi. Kostnaður af þinghaldinu var rúmlega 20 millj. ísl. kr.

Á síðasta starfsári komu hingað gestir frá Eystrasaltsríkjum. Það er í samræmi við ákvörðun sem tekin var árið 1992 um að veita þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi norrænan styrk til að heimsækja Norðurlönd og kynna sér framkvæmd lýðræðis og þingræðis og auka faglega þekkingu sína. Þá má geta þess að Íslandsdeild ákvað að standa fyrir ráðstefnu nú nýverið um Schengen og norræna vegabréfasambandið og var hún haldin þann 23. febrúar í Flughótelinu í Keflavík.

Starfsmenn skrifstofu Íslandsdeildar á starfsárinu voru Elín Flygenring, forstöðumaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, og Lene Hjaltason deildarsérfræðingur. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir mjög gott starf.

Hæstv. forseti. Ísland fór með formennsku í Norðurlandaráði á síðasta ári. Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 27. febr. 1995 tók hv. þm. Geir H. Haarde við starfi forseta Norðurlandaráðs. Gegndi hann því til 1. janúar 1996 þar eð reglum um skiptingu á formennskulandi var breytt eins og áður hefur komið fram. Skiptin fara nú fram um áramót.

Hv. þm. Geir H. Haarde lagði fram skýrslu fyrir forsætisnefnd um þau atriði sem hann hafði sérstakan áhuga á að yrði unnið að á starfsárinu. Fyrst og fremst lagði hann áherslu á að skipan og starfsháttum norræns samstarfs yrði breytt og að þeim breytingum yrði lokið á starfsárinu.

Í öðru lagi lagði hann áherslu á að Norðurlandaráð mundi auka samstarf heimskautsríkja og að þingmannanefnd sú sem Norðurlandaráð kom á með þátttöku Bandaríkjamanna, Kanada, Rússlands og Evrópuþingsins, mundi starfa ötullega að því að ríkisstjórnir stofnsettu Norðurheimskautsráð.

Í þriðja lagi lagði forsetinn áherslu á að alþjóðasamstarf innan Norðurlandasamstarfsins yrði styrkt og þrátt fyrir að þrjú af fimm Norðurlöndum væru fulltrúar í Evrópusambandinu mundi hið nána norræna samstarf sem átt hefur sér stað innan Sameinuðu þjóðanna halda áfram. Lagði hann til að Norðurlandaráð héldi þemafundi um ýmis málefni þar sem Norðurlönd gætu átt sérstakt samstarf innan alþjóðastofnana m.a. hvað varðar norrænt samstarf á hafréttarsvæðum, varnarsamstarf í Evrópu, lagasamstarf, samstarf um mannréttindamál og menningarmálasamstarf.

Í fjórða lagi lagði hann áherslu á að upplýsingaflæði milli Norðurlanda og Evrópusambandsins yrði aukið til muna og að sett yrði á stofn norræn upplýsingaskrifstofa í Brussel sem sæi um að safna upplýsingum sem hefðu sérstakt gildi fyrir norrænt samstarf, fyrir Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina og koma upplýsingum um norrænt samstarf á framfæri við aðila í Evrópusamstarfi.

Þá má geta þess að í júní 1995 var hv. þm. Geir H. Haarde kjörinn formaður þingmannanefndar um heimskautsmálefni og tók hann þar við af Halldóri Ásgrímssyni, núv. hæstv. utanrrh. og norrænum samstarfsráðherra.

Norðurlandaráð hélt fimmta aukaþing sitt í Kaupmannahöfn 29. september. Ráðið var kallað saman til aukaþings til að fjalla um forsætisnefndartillögu og um nýtt skipulag og nýja vinnuhætti fyrir Norðurlandaráð. Einnig var fjallað um þingmannatillögu um nefndarskipan og ráðherratillögu um breytingu á Helsinki-sáttmálanum. Á þinginu var samþykkt að breyta nefndarskipan á grundvelli þess sem ákveðið var á þingi ráðsins í Reykjavík, þ.e. að samstarfið skuli í framtíðinni beinast að þremur meginsviðum.

Í samræmi við þessa ákvörðun var ákveðið að stofna þrjár meginnefndir, Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Þá var einnig ákveðið að forsætisnefnd yrði styrkt sem stjórnunartæki og að þingin yrðu helguð mikilvægum pólitískum málum. En fyrir utan þessar þrjár nýju nefndir og forsætisnefnd var einnig stofnuð kjörnefnd og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs.

Í þingmannatillögunni um nefndaskipan sem þingmenn flokkahóps vinstri sósíalista lögðu fram var lagt til eftirfarandi: Evrópunefnd yrði stofnuð og mannréttindanefnd einnig en menningar-, umhverfis- og efnahagsnefnd mundi halda áfram að starfa. Starfsemi fjárlaganefndar mundi færast yfir til forsætisnefndar. Tillaga sú var ekki samþykkt. Ráðherranefndartillaga um breytingu á Helsinki-sáttmálanum var samþykkt á þinginu. Síðan hélt Norðurlandaráð sitt síðasta aukaþing í Kuopio í Finnlandi 13.--15. nóvember 1995. Þar fóru fram almennar umræður sem voru helgaðar utanríkis- og varnarmálum ásamt Evrópumálum.

Hæstv. forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég vil að síðustu segja örfá orð um hvaða þýðingar þessar breytingar sem nú hafa verið gerðar á Norðurlandaráði munu hafa fyrir Ísland. Auðvitað er erfitt að gera sér grein fyrir því á þessari stundu. Reynslan verður að leiða það í ljós. En ég held þó að allir hafi gert sér grein fyrir því að breyttar aðstæður sem eru því samfara að þrjú af Norðurlöndunum eru orðin aðilar að Evrópusambandinu kalla á breytingar á skipulagi Norðurlandaráðs. Breytingarnar hafa það í för með sér að landsdeildir hafa miklu minna vægi en áður var en pólitísku flokkahóparnir meira. Nú fer val í trúnaðarstöður fram í flokkahópunum. Það gerðist áður í landsdeildunum. Það má því segja að þingmenn þurfi að sanna sig í sínum flokkahópum. Ég ætla ekki að segja duglegri. Ég vil halda því fram að allir þingmenn hafi verið duglegir í norrænu samstarfi en þeir þurfa að sanna sig í sínum flokkahópum til þess að eiga möguleika á að verða tilnefndir í trúnaðarstöður í norrænu samstarfi.

Við Íslendingar höfum haldið því fram og teljum mikilvægt að norræna samstarfið gagnist okkur sem tengiliður þar sem við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu og mér sýnist að það eigi að geta gengið þannig fram. Við munum leggja mikla áherslu á að áfram verði unnið að samstarfi á heimskautssvæðinu sem þegar er hafið og að norðurheimskautsráð verði stofnað. Ég held það megi fullyrða að það sé útlit fyrir að það geti gerst á þessu ári.

[11:15]

Fjárhagsrammi forsætisnefndar fyrir árið 1996 er 39 millj. sænskra kr. Skrifstofa forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi er nú með 28 starfsmenn og greiðir Ísland 1,1% til þessara fjárlaga. Það er ekki mikill kostnaður sem kemur þannig á okkur Íslendinga í þessu mikilvæga samstarfi. Að lokum vil ég segja að norrænt samstarf er okkur Íslendingum óskaplega mikils virði og verður það áfram. Þess vegna er mikilvægt að þannig verði haldið á málum að það muni geta þróast áfram en þó í fullu samræmi við það sem er að gerast að öðru leyti í Evrópu.

Að síðustu þakka ég samstarfsfólki mínu, hv. þingmönnum sem hafa skipað Íslandsdeild Norðurlandaráðs ásamt mér á þessu tímabili, fyrir mjög gott samstarf.