Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 11:16:10 (3406)

1996-02-29 11:16:10# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:16]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég lýsi ánægju minni með að umræða um norræn málefni á grundvelli þeirra skýrslna sem fyrir liggja fer fram snemma á degi og ég þakka hæstv. forseta fyrir þá tilbreytni að skapa rúm á góðum tíma í þingstörfum til þess að ræða norrænt samstarf. Ég segi þetta vegna þess að á undanförnum árum, ég held ég megi segja mörgum árum, hefur það ekki verið Alþingi til sérstaks sóma hvernig umræðum um hin norrænu mál á grundvelli ársuppgjörs hefur verið komið fyrir og ég vona að sá háttur sem hér er tekinn upp verði til eftirbreytni.

Ég hef starfað á vettvangi Norðurlandaráðs í sjö eða átta ár ár, frá 1988 til loka síðasta árs. Ég tek þátt í þessari umræðu fyrst og fremst af áhuga á norrænum málum sem hjá mér tengist ekki veru í Norðurlandaráði sérstaklega þó að það hafi auðvitað orðið til þess að opna augu mín fyrir mörgu og gefa mér kost á að kynnast mörgu sem ella hefði ekki orðið. Það væri mjög æskilegt að þingheimur almennt gæfi þessum málum meiri gaum en verið hefur. Sérstök athugun fór fram á þeim málum á síðasta ári á vegum embættismanna skrifstofu Norðurlandaráðs, hvernig þau mál sem þar eru rædd og ákvörðuð skila sér inn á þjóðþingin. Ég legg ekki mat á þá úttekt sem þá fór fram en hún minnir okkur á að það er auðvitað nauðsynlegt að alþjóðasamstarfið og þá ekki síst norræna samstarfið tengist þeim störfum sem fara fram á þjóðþinginu vegna þess að margt er þar þýðingarmikið og að nokkru leyti samtvinnað.

Varðandi starfið að norrænum málefnum á vegum Alþingis hefur þar verið unnið ötullega af þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í því og af því starfsliði sem sinnir þessum verkum á skrifstofu Norðurlandaráðs sem og af þeim ráðherrum sem starfa innan Norræna ráðherraráðsins. Er þar í hópi hæstv. utanrrh. sem gegnir jafnframt störfum samstarfsráðherra Norðurlanda. Vegna tengsla þings eða starfa að þessum málum á vegum Alþingis hef ég lagt áherslu á að þess yrði gætt að þó að breyting hafi orðið á norrænu samstarfi og undirstöður þess að nokkru leyti veikst að mínu mati vegna aðildar þriggja Norðurlanda að Evrópusambandinu leggjum við Íslendingar áfram ríka áherslu á að halda þessu samstarfi sem myndarlegast uppi og Alþingi þar á meðal. Við gætum þess að á vegum Alþingis sé tryggt að það sé vel búið að þessu samstarfi. Ég tel að með sjálfstæðri skrifstofu, sem vinnur að þessum málum, eigi það að vera tryggt að svo sé enda séu eðlileg fjárframlög til hennar. Ég held að við þurfum að gæta þess í framtíðinni að raska ekki því sem vel hefur tekist til í þessum efnum og í öllu falli að búa svo vel að þeim sem sinna þessum málum á vegum þingsins að ekki sé skorið við nögl.

Ég kem að nokkrum atriðum sem varða breytingarnar á norrænu samstarfi og það sem hæstv. ráðherra og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs gerði að umtalsefni. Ég nefni þar fyrst það sem varðar áherslubreytingar í samstarfinu vegna Evrópumálanna. Vissulega er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að tryggja sem best samstarf við Evrópusamstarfið og halda uppi eðlilegum tengslum við það mikilvæga svæði eins og önnur svæði og breytingar sem gerðar hafa verið á norrænu samstarfi hafa lotið að þessu að nokkru leyti og kannski að verulegu leyti. Ég vil síður en svo gera lítið úr þýðingu þess að við stöndum þar vaktina. Við höfum einnig hið Evrópska efnahagssvæði sem tengir þessi svæði saman, Ísland við Evrópusambandið með sérstökum samningi en ég vil slá vissan varnagla. Ég held að við þurfum að gæta þess, a.m.k. þeir sem telja að Ísland eigi ekki að gerast aðili að Evrópusambandinu, að það sé ekki vænlegur kostur, hvorki í bráð né lengd fyrir Íslendinga. Við getum kannski orðað það í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá þurfum við að gæta þess að áherslan á norrænu tengslin svo eðlileg sem hún er verði ekki til þess að við sogumst lengra en æskilegt er inn í tengsl við Evrópusambandið sem eins konar viðhengi, eins konar vagn sem hengdur er aftan í. Ég segi þetta vegna þess að ég tel að þarna geti verið ákveðin hætta á ferðum. Þar hef ég m.a. í huga þá ríkjaráðstefnu sem er að hefjast eftir réttan mánuð, 29. mars, á vegum Evrópusambandsins, ríkjaráðstefna þess þar sem æðstu menn Evrópusambandsríkjanna koma saman til þess að fjalla um breytingar á grunnsáttmála Evrópusamningsins, Maastricht-samningnum eða Maastricht-sáttmálanum eins og hann er nú kallaður, Rómarsamningurinn að stofni að sjálfsögðu.

Á þessari ríkjaráðstefnu verða til umræðu breytingar á samningnum. Hverjar þær verða og hversu róttækar er ekki ljóst. Um það er deilt og verður sjálfsagt tekist á á þessum vettvangi en þær geta leitt til verulegra breytinga sem hafa óbein áhrif á okkur og samstarfsskilyrðin. Þar hef ég m.a. í huga utanríkissviðið þar sem áhersla er lögð á það af mörgum innan Evrópusambandsins að þétta samstarfið þar og samningsbinda þar meira en gert var í Maastricht 1992. Þar hef ég í huga ýmis þau efni sem flokkast nú undir þriðju stoð í sáttmálum Evrópusambandsins sem varða innanríkismálefni og lögreglumálefni og annað þess háttar sem hefur verið á fullu forræði hvers ríkis en sem rædd verða á þessari ríkjaráðstefnu og hugmyndir eru uppi um það hjá ýmsum að þar verði meirihlutasamþykktir teknar upp sem getur auðvitað haft verulegar breytingar á þróun þessara mála innan Evrópusambandsins.

Virðulegur forseti. Ég tek hér ekki tíma til þess að fjalla nánar um þetta efni en ég vek athygli á því. Vafalaust eru skoðanir skiptar og það þekkjum við á Alþingi um framtíðarsýn á stöðu Íslands í Evrópu. En þeir sem telja að við eigum ekki erindi inn í þá stóru ríkjaheild sem er í mótun í Evrópu þurfa að gæta þess að í þessu samstarfi, hinu norræna sem annars staðar, sogumst við ekki inn hálfnauðug. Ég held að við þurfum við umræðuna um Schengen-samstarfið, vegabréfasamstarfið og þá áherslu sem lögð er á að viðhalda hinu norræna vegabréfasamstarfi einnig að hafa þetta í huga. Þetta sérstaka samstarf mikils meiri hluta Evrópusambandsríkja sem miðar að því að afnema vegabréfaskyldu milli landa hefur áhrif vegna aðildar þriggja Norðurlandanna að Evrópusambandinu. Það getur hins vegar gerst í framhaldi af ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins að breytingar verði á þessum grunni og þetta Schengen-samstarf færist alveg undir ramma Evrópusambandsins og verði hluti af því. Það getur vel orðið. Ég hef því viðrað þá hugmynd að við eigum hvort sem menn eru á því að það beri að stefna inn í þetta samstarf eða ekki að taka okkur lengri tíma en nú er rætt um og sjá hvað gerist á hinni mikilvægu ríkjaráðstefnu í þessum efnum, hver staða verði þá uppi.

Í þessu sambandi er talað um að frjáls för milli landa sé mikilvæg. Auðvitað er hún mikilvæg. Á það erum við að leggja ríka áherslu. En hún ræðst ekki eingöngu af því hvort menn þurfa að hafa með sér vegabréf eða ekki. Hún ræðst af því hvort menn komast hindrunarlaust í gegn með eða án framvísunar vegabréfa. Ég vek athygli á því að uppi eru hugmyndir um það jafnhliða því sem talað er um Schengen, t.d. um aðild Norðurlandanna þriggja að Schengen, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands, að innleiða verði sérstök skilríki, sérstök nafnskírteini eða ígildi vegabréfa sem hverjum og einum beri að bera með sér, e.t.v. á öllu þessu svæði, og vera reiðubúnir að framvísa ef óskað er eftir hvar sem er þannig að hér er ekki allt sem sýnist í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Næst vil ég nefna fjárhagsrammann. Það er sannarlega áhyggjuefni að það er knúið á um það af Svíum að lækka framlög til hins norræna samstarfs umfram það sem eru sjónarmið annarra Norðurlanda. Það er vissulega réttmætt og þakkarvert að hæstv. utanrrh. er í hópi þeirra sem standa þar á móti eins og fært er. Lækkunin milli síðustu ára var í krónum talið um 11 millj. danskra króna en meira vegna verðbreytinga, e.t.v. ígildi allt að 30 millj. danskra króna. Þarna eru uppi kröfur um verulega lækkun, einning á forgangssviðum. Við sjáum það t.d. á sviði eins og umhverfismálunum, sem átti að vera eitt af forgangssviðunum, að þar kemur fram lækkun milli ára. Hér stefnir í ranga átt og ég óttast að við annars réttmæta endurskoðun á starfi stofnana, hinna samnorrænu stofnana, sé það ekki bara hugmyndin, og þá á ég við Svía og kannski fleiri, að skapa svigrúm til nýrra verkefna, heldur að nota þessa endurskoðun til þess að skera niður, til þess að lækka norrænu fjárlögin. Mér sýnist að margt jákvætt hafi gerst við þessa endurskoðun á hinum norrænu stofnunum. Ég vil ekki leggja mat á stöðuna eins og hún liggur fyrir nú en álitamál eru þar vafalaust mörg. Ég tel að sérfræðinganefndin sem skilaði áliti sínu hafi ekki að öllu leyti verið með réttar áherslur. Ég var mjög undrandi á þeim einkunnum sem þar er að finna varðandi margar af hinum norrænu stofnunum, lágar einkunnir á stofnunum sem við höfðum haldið að hefðu haft verulegt gildi. Mér skilst t.d. að í hópi þeirra 13 stofnana sem nú er ráðgert að leggja niður sé Norræna þjóðfræðastofnunin, mig minnir að hún heiti það. Ég vil inna hæstv. utanrrh. eftir þeirri stofnun sérstaklega, hvert viðhorf hans sé til hennar. Mér sýnist tæplega réttmætt að stefna að því að leggja störf hennar niður.

Virðulegur forseti. Hér ef ég nefnt fáeina þætti, en ástæða væri til að ræða margt fleira. Má því vera að ég kveðji mér aftur hljóðs við umræðuna til þess að víkja að nokkrum fleiri atriðum.