Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 11:31:23 (3407)

1996-02-29 11:31:23# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, SvG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:31]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja finnst mér að núna við þessa fyrstu umræðu um norrænt samstarf eftir að breytingarnar voru ákveðnar og komu til framkvæmda, hefði kannski mátt velta því aðeins fyrir sér hvernig þær hafa gefist og hvort þær eru líklegar til að efla þetta samstarf til frambúðar. Ég heyrði á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hann hafði sínar skoðanir á því máli. Ég get ekki neitað því að mér finnst að í þessum breytingum felist ákveðin uppgjöf við að halda hátt á lofti merkjum norrænnar samvinnu. Ég held að það sé áhyggjuefni, sérstaklega fyrir Ísland, vegna þess að fyrir okkur skiptir kannski meira máli en fyrir alla aðra að þessir hlutir séu bornir myndarlega fram, bæði í sjálfu sér en líka í hinu alþjóðlega umhverfi sem við erum hluti af. Ég hef velt því fyrir mér á undanförnum missirum þegar maður sá að hverju dró af hverju Ísland hefur ekki getað tekið sig meira út úr en raun ber vitni og af hverju menn hafa ekki getað tekið sig saman sem Íslendingar í þessu samstarfi til þess að halda þannig á málum að því væri lyft aðeins inn í framtíðina með myndugri hætti en ætlunin virðist núna þegar meiningin er að skera niður framlög og þetta er svona að mörgu leyti heldur ræfilslegt og kraftlítið.

Þá er mitt svar að nokkru leyti það að þær undirstöður sem nefndir einstakra þjóðríkja hvíla á hafa verið veiktar mjög verulega. Þar á ég t.d. við flokkasamstarfið sem menn eru píndir í með flokkum sem þeir eiga í raun og veru enga pólitíska samleið með en eru allt í einu orðnir partur af á einhverjum skandinavískum fundum. Það á t.d. við um okkur alþýðubandalagsmenn, við höfum stundum upplifað okkur í mjög sérkennilegum félagsskap á þessum vettvangi. Ég get ímyndað mér að það eigi líka við um framsóknarmenn. A.m.k. vona ég það en satt að segja veit ég það ekki, þeir hafa verið að taka ýmsum myndbreytingum í seinni tíð. En ég vona að þeim finnist stundum sá félagsskapur sem þeir eru í sérkennilegur, að ég tali nú ekki um íhaldsflokkana sem eru þarna. Ég tel að sumir þeirra séu jafnvel íhaldssamari en Sjálfstfl. og er þá langt til jafnað. Ég tel því að Ísland hafi goldið þess hvernig þetta kerfi hefur verið útbúið og hið norræna samstarf þar af leiðandi. Íslensku fulltrúarnir hafa ekki síður verið hluti af einhverjum flokkasendinefndum þarna en þátttakendur í því að leggja áherslu á hið norræna samstarf eingöngu á íslenskum forsendum. Og ég held að sú aukna áhersla á flokkasamstarf sem verður núna í hinu nýja skipulagi sé ekki til bóta fyrir Ísland.

Ég vil að þetta sjónarmið komi hér fram og sé haldið til haga vegna þess að ég tel að það eigi rétt á sér. Ég harma að það skuli ekki vera rætt alveg sérstaklega vegna þess að Ísland hefur sérstöðu í þessu máli. Þetta vildi ég nefna nr. eitt, hæstv. forseti, því að ég tel að það skipti máli.

Í öðru lagi finnst mér ástæða til að nefna það hér, eins og ég hef reyndar gert stundum áður, að mér finnst að það eigi að gera meira úr norrænu menningarsamstarfi í þessari umræðu en venjulega er gert. Mér finnst t.d. að það væri hugsanlegt að fara sérstaklega yfir Norræna menningarsjóðinn. Það væri hugsanlegt að Norræni menningarsjóðurinn, sem hefur algera sérstöðu meðal norrænna stofnana og er eins konar samstarfsverkefni ráðherranna og þingmannanna, væri hér til meðferðar sem sérstakt efni og það væri sérstök skýrsla um Norræna menningarsjóðinn og stöðu Íslands í hinu almenna, norræna menningarsamstarfi sem kæmi hér til umræðu. Ég tel það réttlætanlegt út af formlegri stöðu Norræna menningarsjóðsins, en það er auðvitað líka réttlætanlegt vegna þess að norræna menningarsamstarfið er svo gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland. Það skiptir því miklu að þar sé myndarlega á málum haldið og að Alþingi sé ljóst hve þýðingarmikið þetta norræna menningarsamstarf er. Ég dreg ekki í efa að þingmenn þekki þessa hluti flestir allvel, en ég held þó að það væri gagnlegt fyrir Alþingi, norrænt samstarf og norræna menningarsamstarfið og menningarmálin yfirleitt ef þau væru tekin sérstaklega fyrir. Þetta hef ég rætt hér áður og tel ástæðu til að ítreka það, hæstv. forseti.

Þá vil ég nefna að mér fannst það athyglisvert í þeim framsöguræðum sem hér voru haldnar áðan að þar var nokkuð mikið rætt um Evrópusamstarfið og tengslin við Evrópu. Þar var dálítið talað um Eystrasalt og þar var dálítið talað um heimskautin, en það var lítið talað um vestnorrænt samstarf. Mér finnst það samt vera vinkill sem skiptir máli þegar við horfum á hið norræna samstarf. Staðreyndin er sú að það er alveg hægt að halda því fram að hið vestnorræna samstarf hafi að nokkru leyti verið sett til hliðar í hinu almenna, norræna samstarfi á undanförnum árum, m.a. vegna þess að menn hafa beint sjónum sínum annað. Og það tel ég harmsefni. Hvað varðar heimskautssamstarfið tel ég að menn miði þar við að reyna að ná árangri sem vafalaust er mjög mikilvægur, en ég er ekki viss um að hægt verði að ná honum alveg á næstunni vegna þess að þar eigum við við að véla ýmsar þjóðir sem hafa að sumu leyti önnur forgangsatriði en við. Ég nefni þar t.d. Kanada, Bandaríkin og Rússland. Þar eru hlutirnir aðeins flóknari en gerist hjá okkur. Þess vegna finnst mér að í umræðu um norrænt samstarf eigi að leggja áherslu á tengslin frá hinu norræna samstarfi í gegnum vestnorræna samstarfið yfir til þessa heimskautssamstarfs. Það á að ræða hlutina í því samhengi. Ég verð að segja að mér finnst það alvarlegt umhugsunarefni að á sama tíma og menn látast vera að horfa á þessa hluti eitthvað heildstætt fréttist af því, án þess að það hafi verið rætt nokkurs staðar, að það séu hugmyndir uppi um að leggja niður vestnorræna sjóðinn sem er þó partur af þessu norræna heildarsamstarfi. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst að vestnorrænt samstarf hafi verið vanrækt í norrænu samhengi á undanförnum árum. Ég fann það t.d. vel þann tíma sem ég gegndi formennsku í Norræna menningarsjóðnum að áherslur voru allar í þá átt að leggja frekast áherslu á Eystrasaltsverkefnin. Ég tel það í sjálfu sér gott, en vestnorrænu verkefnin eru svo mikilvæg fyrir þær fámennu þjóðir sem eru hér Norður-Atlantshafinu að það var alvarlegt hvernig þau voru að mörgu leyti vanrækt á þessum tíma. Kannski má segja að umsóknirnar hafi ekki alltaf verið svo góðar, en það var heldur ekkert gert til að ýta undir það. Ég tek þetta upp við umræðuna um norrænt samstarf vegna þess að þetta er norrænt samstarf. Vestnorræna samstarfið er hluti af því þótt við höfum sjálfstæða stofnun sem heitir Vestnorræna þingmannasambandið, sem rætt verður um hér á eftir. Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti, vegna þess að ég tel að þetta skipti mjög miklu máli í hinu almenna, norræna samhengi.