Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:28:41 (3419)

1996-02-29 12:28:41# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Samstarf þingmanna og fyrirkomulag þess er eitt. Samstarf ríkisstjórna og staða þeirra, staða ríkjanna hvers gagnvart öðru eða milli hvers annars og í fjölþjóðlegu samstarfi er annar handleggur. Í rauninni verður þetta mun meira ákvarðandi að því er varðar ríkjasamstarfið. Á þeim vettvangi eru línur dregnar um möguleikana.

Ég hef ekkert á móti því að stjórnmálamenn leitist við að starfa saman til að kynnast hvers annars sjónarmiðum og koma fram með áherslur ef þeir telja sig eiga saman í fjölþjóðlegu flokkasamstarfi. En það breytir ekki því sem síðan er ákvarðað og markað með samningum á milli ríkja. Þar blasir við sá rammi sem Evrópusambandið dregur og er hins vegar breytingum undirorpinn. Hann er að hreyfast í ákveðna átt. Við bíðum eftir því eins og margir aðrir að sjá hvað kemur út úr ríkjaráðstefnunni sem er fram undan. Það getur haft veruleg áhrif, einnig inn á hið norræna samstarf.

[12:30]

Við höfum í rauninni verið í ákveðinni vörn gagnvart hinum sterku áhrifum sunnan að og gagnvart þeim alþjóðlegu breytingum sem eru í gangi og við komumst ekkert undan í sambandi við samkeppnisskilyrði og annað þess háttar. Þetta setur okkur ákveðin takmörk. Við viljum halda í norræn gildi og eigum að nota hvern þann vettvang sem við getum til þess að koma því til skila sem við teljum að sé einhvers virði og við náum saman um. Um það erum við hv. þm. áreiðanlega sammála.