Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:57:31 (3424)

1996-02-29 12:57:31# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eiginlega nákvæmlega þetta sem ég var að hvetja til, þ.e. að það yrði einhvern tíma umræða um norræna menningarsamstarfið í víðtæku samhengi á grundvelli skýrslu um sjóðinn. Það væri ágætt að taka málið til umræðu á þeim grundvelli til vekja athygli á þessu samstarfi. Það eru satt að segja alveg ótrúlega margir Íslendingar sem láta sig þetta norræna menningarsamstarf mjög miklu skipta en það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að þeir eru allt of fáir hins vegar sem koma fram með það mál á vettvang nema þegar eitthvað bjátar á. Það vill oft verða í öðrum pólitískum verkefnum, að fólk lætur einmitt í sér heyra þegar hallar á. En veruleikinn er sá að ég hygg að það séu þúsundir Íslendinga sem norræna menningarsamstarfið snertir með einum eða öðrum hætti. Ég held að þetta fólk mætti gjarnan finna sinn samnefnara í einhverri umræðu af þessum toga á Íslandi og sem færi þá fram í þessari stofnun.

Varðandi það hvort menn hafa náð því að verða samferða í íslensku sendinefndinni, Íslandsdeildinni, þá dreg ég það ekki í efa. Ég dreg það heldur ekki í efa að menn hafi allir lagt sig fram. Og ég dreg það heldur ekki í efa sem er mikilvægt að þeir sem þar eru séu ánægðir með sinn hlut og sáttir við það hvernig þeir unnu. Ég held þó að þrátt fyrir það megi menn hugsa um þetta og ekki láta læsa sig fasta í þessu flokkasamstarfi. Ég leyfi mér að gera athugasemd við það og ég skora á menn að taka líka mark á því.