Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:18:44 (3433)

1996-02-29 14:18:44# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta samstarf beri að skoða í norrænu samhengi. Ég er andvígur því að líta á það sem einangrað fyrirbæri. Ég vil þátttöku hinna Norðurlandaþjóðanna í því. Ég nefni það að uppi eru hugmyndir um það að frumkvæði Dana að því er varðar samstarfið við Barentshaf, að Færeyingar og Grænlendingar komi inn í það samstarf eins og ýmis önnur svæði í Norður-Noregi og í norðurhluta Rússlands, í Norður-Svíþjóð og Norður-Finnlandi. Þess vegna er ég að benda á að það er nauðsynlegt að skoða þessi mál í samhengi. Það er ekki skynsamlegt að vera með líkt samstarf á allt of mörgum stöðum þannig að það verði lítill árangur af því. Ég ítreka þá skoðun mína að ef þetta samstarf á að geta fengið þann styrk sem því ber, þarf að víkka það út. Það þarf að fá fleiri að málum og það verður að vera bæði á ríkisstjórnargrundvelli og milli þingmanna. En ég bendi á, t.d. að því er varðar Barentshafið, að tekist hefur að skipuleggja það samstarf bæði sem samstarf milli ríkisstjórna og jafnframt milli svæða án þess þó að það sé komið í gang þingmannasamstarf. Ég tel að það sé það margt að gerjast í þessum málum að það sé eðlilegt að taka endurskoðun á vestnorræna samstarfinu inn í þessa mynd og því mun ég reyna að fylgja eftir ef fyrir því er vilji hjá þeim sem starfa innan Vestnorræna þingmannasambandsins.