ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:36:11 (3438)

1996-02-29 14:36:11# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:36]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýddi á mál hv. þm. vegna þessarar skýrslu. Ég hef einnig heyrt í hv. þm. í sambandi við skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Þegar þetta tvennt er lagt saman hlýtur maður að spyrja: Hver er sýn Kvennalistans til utanríkismála?

Mér kom dálítið á óvart spurning hv. þm. fyrr í dag í sambandi við Norðurlandasamstarfið þó að það væri vissulega rökstutt af hennar hálfu. Það var viðleitni til rökstuðnings. En mér fannst koma líka ákveðið mat þar fram. Nú er spurningin um Öryggisráðstefnuna í Evrópu og hvort Alþingi Íslendinga eigi að láta sig þann vettvang skipta. Jafnframt finnst mér koma fram spurning um þýðingu þeirra samtaka sem ganga undir þessu nafni. Mér fannst hvort tveggja felast í máli hv. þm.

Ég tel að Ráðstefnan um öryggismál í Evrópu hafi verulega þýðingu og það sé ekkert sem hafi komið í staðinn fyrir hana. Spurningin hlýtur miklu frekar að vera sú hvort ekki sé hægt að treysta það samstarf, færa það út og treysta það. Þetta er eini vettvangurinn þar sem Rússland og fleiri ríki í austanverðri álfunni eru þátttakendur í skipulegu samstarfi af þessum toga. Það eru ekki nein sólarmerki sem vísa til þess að þar verði einhver róttækt breyting á. Ég held að þeir sem tala fyrir hlutleysisstefnu og tala gegn hernaðarbandalögum og vilja sem víðtækast alþjóðasamstarf, þurfi að gæta sín áður en þeir fara að kippa fótunum undan þessum vísi sem mætti vera sterkari.