ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:41:32 (3440)

1996-02-29 14:41:32# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst ekki rétt að tala um það hversu margir þingmenn á Alþingi geti tekið þátt í þessari eða hinni ráðstefnunni, síst af öllu ef verið er að leggja mat á gildi alþjóðasamtaka sem slíkra. Mér finnst hv. þm. annars vegar rugla saman spurningunni um það á hverju höfum við efni í sambandi við það hvaða fjöldi þingmanna er sendur á vettvang hverju sinni og hins vegar hvaða gildi viðkomandi samtök hafa. Ég minni á það að þessi samtök ríkja í álfunni, einu heildarsamtök Evrópuríkja í rauninni, --- vissulega hefur Evrópuráðið fært út kvíarnar og hefur mikla þýðingu en það er á öðru sviði --- þessi samtök eru sprottin upp úr Helsinkiráðstefnunni á sínum tíma og áttu kannski einhvern þátt í því samstarfi sem smám saman þróaðist fyrir lok kalda stríðsins milli austurs og vesturs á þessu sviði. Ég held að sú staðreynd að það vantar mikið á að þessi víðtæku samtök Evrópuríkja hafi skilað þeim árangri og þetta samstarf hafi náð þeirri festu sem þörf er á, eigi ekki að lita mat okkar á þessum samtökum. Ég held að það sé miklu frekar að athuga hverjar ástæðurnar eru fyrir því að ekki er lengra komið á þessum vettvangi. Ég held að það sé nokkuð langt í land með að það verði með öðrum hætti tryggður samræðuvettvangur á milli Rússlands og fleiri ríkja í Austur-Evrópu og ríkja og samtaka í vestanveðri álfunni. Ég sé ekki að Rússland sé á leið inn í Evrópusambandið. Ég sé ekki að Rússland sé á leið inn í Atlantshafsbandalagið. Ég held að það sé mikil þörf á því að þarna sé vettvangur sem þjóðir álfunnar mætist á, fyrir utan Sameinuðu þjóðirnar sem halda sínu gildi.