ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:45:40 (3442)

1996-02-29 14:45:40# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:45]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég get á margan hátt tekið undir orð hv. 14. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, enda endurtók hún að vissu leyti það sem ég hef sagt. Þessi samtök þurfa að spyrja sig stöðugt að því hvort þau séu þörf eða ekki. Það sem kannski helst vantar á er að þessi fjöldamörgu alþjóðlegu samtök, sem eru að vinna hingað og þangað, skilgreini nákvæmlega hvað hver gerir svo þau séu ekki öll að garfa í því sama. Ég get t.d. alveg séð fyrir mér að ÖSE-þingið sjái alfarið um kosningaeftirlit og mannréttindamál en sé ekki í samkeppni við Evrópuráðið og önnur samtök sem vinna að því sama.

Ég varpaði þeirri spurningu fram í Ottawa sl. sumar í einni nefndinni hvert væri eiginlega markmið þessara samtaka. Ég hafði einmitt á tilfinningunni að það sem var að gerast þarna væri ekkert voðalega merkilegt. Ég spurði hvort það væri þess virði að safna saman 300 þingmönnum á einn stað til þess að gera einhverjar innantómar ályktanir um innantóm mál sem enginn framfylgir. Þar er ég ekki bara að tala um peninga, ég er líka að tala um mannafla. Ég bendi á að Alþingi Íslendinga er oft og tíðum óstarfhæft vegna þátttöku alþingismanna í erlendu samstarfi. Næsta mánudag eru t.d. engir þingfundir af þeirri ástæðu. Þetta kostar að sjálfsögðu löggjafarsamkunduna heilmikið, ekki bara í peningum heldur líka í mannafla.

Ég er alveg sammála hv. þm. um að það þurfi að skipa málum mun hagkvæmar og betur og minnka skörunina á milli þessara samtaka.