ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:50:01 (3444)

1996-02-29 14:50:01# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög erfitt að taka á þessum málum. Mér er t.d. tjáð að ÖSE-þingið hafi átt góðan og mikinn þátt í friðarsamkomulaginu í Tsjetsjeníu. Hversu mikils virði er það að ná friði einum degi fyrr en seinna? Hvað kostar það í mannslífum og þjáningum? Og getur verið að það sé þess virði að skreppa einu sinni á ári til útlanda á fund ef árangur næst í þessum efnum? Ég get því ekki með góðri samvisku lagt til að ÖSE verði lagt niður. Hins vegar get ég lagt til að starfið verði samræmt og gert virkara þannig að það séu ekki margir að gera sama hlutinn, að það séu ekki margir um kosningaeftirlit, margir um baráttu fyrir mannréttindum, heldur væri ÖSE t.d. falið það verkefni sérstaklega. Þá yrði starfið virkara og við næðum betri árangri. Ég verð að segja að þau mál sem hér er unnið að, t.d. framkvæmd kosninga í Bosníu, er svo mikið atriði fyrir íbúana að ég held að við Íslendingar getum ekki skorast undan því að taka þátt í því. Mér finnst þetta bara ekki nógu virkt.