ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:55:57 (3447)

1996-02-29 14:55:57# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki ósammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um það sem hann sagði áðan. En hann sagði sjálfur að við yrðum auðvitað að gæta hófs í okkar þátttöku. Það er staðreynd að við höfum úr takmörkuðu fjármagni að spila og við þurfum að velja vel hvernig við eyðum því. Nú er það svo að hv. þm. Pétur Blöndal er okkar fulltrúi á Ráðstefnum um öryggi og samvinnu í Evrópu. Ég skildi mál hans þannig að hann sjálfur væri ekki fullkomlega sannfærður um að það væri algjörlega virði þess tíma sem í það starf færi og þess fjármagns sem þyrfti að verja til þess. Mér þótti sem hann tæki með þeim orðum sínum að nokkru leyti undir gagnrýnisrödd hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur í þessum efnum. Þess vegna blandaði ég mér í þessa umræðu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að það ætti að senda fulltrúa frá Alþingi Íslendinga til þess að fylgjast með störfum þessarar stofnunar. Gott og vel, ekki skal ég draga úr því. Hins vegar sagði hann líka að það væri staðreynd að sú stofnun væri að sinna málefnum sem engin önnur stofnun sinnti. Ég skildi hins vegar mál hv. þm. Péturs Blöndals þannig að það væri um skörun að ræða að einhverju leyti milli þessarar stofnunar og Evrópuráðsins. Að því leyti sem ég þekki þessar tvær stofnanir hefur mér fundist að þessi skörun hafi aukist talsvert á síðustu árum. Þess vegna verð ég að segja að ég er sammála því viðhorfi hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur að við eigum að íhuga það vel hvort þetta er virði fjármagnsins og tímans sem í þetta fer. Við eigum að skoða það og mér finnst merkilegt þegar fulltrúi okkar, Pétur Blöndal, kemur og tekur nokkuð vasklega undir þetta viðhorf. Hann hnýtir síðan við ákveðnum siðferðilegum fyrirvörum sem ég get verið honum alveg sammála um. Ég tek skýrt fram að ég kem ekki hér upp til þess að gagnrýna einn eða neinn. Þetta eru bara viðhorf sem mér finnst að við eigum a.m.k. einu sinni á ári að velta fyrir okkur. Í hverju eigum við að taka þátt og í hverju ekki? Hversu miklum fjármunum eigum við að verja í það o.s.frv.?