Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:30:15 (3453)

1996-02-29 15:30:15# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um utanríkismál. Ég tel að þetta sé eiginlega í fyrsta skipti sem bærilega líflegar umræður fara fram um þær skýrslur sem þingmannasamtökin hafa lagt fram hér á Alþingi. Ég tel það mikla framför og bera vott um vaxandi áhuga á alþjóðlegu samstarfi og þýðingu þess.

Það er ljóst að hinar ýmsu stofnanir í Evrópu eru í mótun. Hér hefur verið rætt nokkuð mikið um mikivægi þeirra. Mér heyrist að flestir séu sammála um mikilvægi NATO og þeirrar þróunar sem þar á sér stað. Það eru líka allir sammála um þýðingu Evrópuráðsins og þeirrar þróunar sem þar eru í gangi, en nokkrar efasemdir eru um ÖSE. Ég held að það sé rangt að gera lítið úr því sem er að gerast í ÖSE. Þótt sú stofnun kunni að breytast og verði jafnvel lögð niður þegar frá líður, er hún mjög mikilvæg í því þróunarferli sem nú á sér stað. Það er nánast útilokað að leggja það starf niður fyrr en línur skýrast í samstarfinu við Austur-Evrópu og sérstaklega Rússland. Samstarfið innan ÖSE þjónar sem mikilvæg brú í því sambandi en það má vel vera að það fari svo, ef NATO verður stækkað með eðlilegum hætti og Evrópuráðið þróast í þá átt sem nú er að gerast, að ÖSE verði smátt og smátt óþarft. Það er af hinu góða ef samrunaferlið í Evrópu getur leitt til þess að fækka stofnunum því það er enginn vafi á því að þar er viss tvíverknaður. Það hefur komið skýrt fram í þessum viðræðum. En einmitt til þess að geta sameinað stofnanir, þarf stundum nýjan samvinnuvettvang til að koma því til leiðar. Það sama hefur verið að gerast innan NATO-samstarfsins. Það hefur verið hafið mjög þýðingarmikið samstarf við Austur-Evrópuríkin og Rússland sem hér hefur verið til umræðu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurðist fyrir um stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég get upplýst hann um það að stefna ríkisstjórnar Íslands er alveg skýr í þessu máli. Ríkisstjórn Íslands styður stækkun NATO til austurs en vill hins vegar að þar verði farið fram á varkáran hátt. Hvað þýðir það? Það þýðir að við styðjum þann undirbúning sem nú á sér stað innan NATO þar sem verið er að skilgreina hvaða skilyrði viðkomandi ríki þurfi að uppfylla til að gerast aðilar að NATO. Og það eiga sér líka stað núna mikilvægar viðræður við hvern og einn umstækjanda. Það verður lögð fram skýrsla á ráðherrafundi NATO sem verður haldinn í Berlín í byrjun júní. Þessi skýrsla mun áreiðanlega skýra nokkuð hvernig staðan er. Síðan er ætlunin að á ráðherrafundi NATO næsta haust eða í desember nk., verði málið orðið nægilega vel undirbúið til að hægt verði að taka frekari ákvarðanir um það.

Hvað Vestur-Evrópusambandið varðar þá veit hv. þm. jafn vel og aðrir og betur að þar eru uppi tvær stefnur. Annars vegar stefna þeirra sem vilja að Vestur-Evrópusambandið verði hluti af Evrópusambandinu, enda er það skilyrði í dag til að geta orðið fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu að vera bæði aðili að NATO og jafnframt aðili að Vestur-Evrópusambandinu. Það er ekki stefna okkar Íslendinga og ég tel að um það sé enginn ágreiningur. Okkar stefna er sú að Vestur-Evrópusambandið verði sjálfstæð stofnun, Evrópustoð NATO-samstarfsins eins og menn hafa orðað það, þannig að aðilar geti verið sjálfstæðir og fullgildir aðilar að þeim samtökum án þess að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ég heyri að við erum alveg sammála um þá afstöðu. En þessar línur þurfa að skýrast betur, m.a. er beðið eftir því hver verður útkoman á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins.

Að því er varðar Eystrasaltsríkin þá var það tekið skýrt fram á þeim fundi sem ég átti með framkvæmdastjóra NATO, Solana, að Íslendingar sýndu sérstakan áhuga á aðild Eystrasaltsríkjanna þriggja að Atlantshafsbandalaginu og við styddum þá viðleitni þeirra.

Nú er það svo að þessi ríki, ásamt öðrum ríkjum Austur-Evrópu sem hafa sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu, hafa jafnframt sótt um aðild að Evrópusambandinu. Þessi ríki eru því bæði að banka á dyr Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Að því leyti til er þetta nokkuð samhliða, án þess að ég vilji setja þar eitthvert samasemmerki á milli eða gera það að skilyrði, að enginn fái að ganga í Atlantshafsbandalagið ef hann gengur ekki í Evrópusambandið. Það er ekki skoðun sem hefur komið fram af hálfu Íslendinga mér vitanlega eða a.m.k. ekki þar sem ég þekki til.

Ég vil að lokum þakka fyrir umræðurnar. Ég tel þær mikilvægar og afar þýðingarmikið að sem flestir þingmenn taki þátt í þeim. Það er mikið að gerast í þessum málum. Það á sér stað stöðug þróun sem mikilvægt er að fylgjast með. Þess vegna er ánægjulegt til þess að vita að alþingismenn taki virkan þátt í þessu alþjóðasamstarfi og fylgist með því sem þar er að gerast. Það er alveg rétt, eins og hér hefur komið fram, að þegar fram líða stundir verður ákvörðun tekin um stækkun NATO og ég er viss um að af henni verður. Það er ekki í fyrsta skipti sem Atlantshafsbandalagið er stækkað. Það var síðast stækkað með því að Þýskaland var sameinað og Austur-Þýskaland kom inn í varnarsamstarfið. Það hefur nokkrum sinnum komið til þess að Atlantshafsbandalagið hafi verið stækkað þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það er alveg ljóst að þessi samtök eru í mikilli þróun og það er ánægjulegt til þess að vita að Íslendingar skuli geta beitt áhrifum sínum með öðrum til þess að hafa áhrif á hana. Við eigum að sjálfsögðu að stuðla að því að Atlantshafsbandalagið stækki til austurs því með því verður öryggi Evrópu mun betur tryggt. En við megum samt ekki gleyma því að það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að hafa eðlilegt samstarf við Rússland. Þessi stækkun má ekki verða til þess að ný landamæri verði dregin í Evrópu.