Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:54:51 (3479)

1996-02-29 17:54:51# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Síðustu orð hv. þm. Tómasar Inga Olrich voru honum alls ekki sæmandi og voru ekkert annað en hreinn útúrsnúningur. Hv. þm. veit nákvæmlega hvað mér gekk til. Það sem mér gekk til var það að ég taldi að það væri slæmt og Íslandi til vansa að þegar þrír fulltrúar Íslendinga taka þátt í atkvæðagreiðslu á erlendri grundu klofni þeir í flesta mögulega parta sem hægt er að hugsa sér. Auðvitað er það svo að þetta voru allt saman fulltrúar stjórnarliðsins og það má vel vera að umræðan sé vond fyrir þá því eftir því sem umræðunni vatt fram í málinu klofnaði hún í fleiri parta eins og hv. þm. man. Upphaflega greindust þessir þrír í tvo hluta en þegar upp var staðið og búið var að ræða málið svolítið greindust þeir í þrjá.

Hv. þm. flutti langt mál og ítarlegt og sýndi það sem ég vissi og voru engar fréttir fyrir mig að hann er vel að sér um þessi mál og miklu betur en margir aðrir. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Hvað var það sem var undir? Það sem var undir var það að Rússland var að ganga í fyrstu frjálsu samtökin í Evrópu eftir að lýðræðisþróunin hófst í Austur-Evrópu. Þetta voru kaflaskipti í stjórnmálasögu Evrópu. Það er ekkert skrýtið við það að Íslendingar reyndu að vega og meta þetta mál og taka það til umræðu hér. Það var ekki tekið til umræðu í þinginu sem hefði verið eðlilegt og það var heldur ekki tekið til umræðu í utanríkismálanefnd. Það er engan hægt að ásaka fyrir það. Ég tel að það skorti ákveðnar hefðir í þessum efnum eftir því sem þátttöku okkar í starfi á erlendri grundu fleygir fram.

Mig langar að spyrja hv. þm. Tómas Inga Olrich: Í ljósi þess hversu mikilvæg þessi ákvörðun var og í ljósi þess hversu mikið var fylgst með henni innan lands og utan, hvernig vann nefndin sjálf fram að þessari niðurstöðu? Hvernig ræddi hún þetta mál í sínum hópi? Hvað voru margir fundir haldnir af sendinefndinni til þess að reyna að vega og meta þá kosti og galla sem hv. þm. reifaði svo vel?