Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:57:07 (3480)

1996-02-29 17:57:07# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:57]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var alveg óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að því orðbragði sem hv. þm. notaði um það að menn greindi á um þetta mál. Það vildi svo til að sendinefnd Hollands klofnaði í málinu, sendinefnd Noregs klofnaði í málinu, sendinefnd Svíþjóðar klofnaði í málinu, sendinefnd Tékklands klofnaði í málinu, sendinefnd Eistlands var á móti málinu og sendinefndir mjög margra ríkja klofnuðu í málinu vegna þess að málið var mjög mikið álitamál. Það er einnig rangt að Rússar hafi ekki haft aðild að öðrum frjálsum samtökum. Rússar eru fullgildir aðilar að ÖSE. (Gripið fram í: Eftir að lýðræðisþróunin hófst.) Þeir eru fullgildir aðilar að ÖSE og voru það þegar þessi atkvæðagreiðsla stóð yfir.

Að því er varðar Íslandsdeildina sjálfa hefur hún raunar oftar en einu sinni tekið á því sérstaklega hvort þingmennirnir sem hana skipa tali þar í eigin nafni eða ekki. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir starfa þar sem einstaklingar og það er ekki hlutverk þingmannanefndar eins og þessarar né heldur þingmannanefndar eins og ÖSE að gangast í það að samræma skoðanir þingmannanna. Þeir eru þar sem einstaklingar. Hins vegar ræddi nefndin þetta mál á óformlegum fundum og þar kom í ljós að menn höfðu skiptar skoðanir á því og það endurspeglaðist í umræðum um þetta á lokastigi málsins.